Þór og Tinna efst á U-2000 mótinuÞegar fimm umferðum er lokið á U-2000 mótinu eru Þór Valtýsson og Tinna Kristín Finnbogadóttir efst og jöfn með 4,5 vinning. Næst með 4 vinninga eru Hrund Hauksdóttir, Páll Snædal Andrason, Lisseth Mendez Acevedo, Sigurjón Haraldsson, Páll Þórsson og Agnar Darri Lárusson.

Þór Valtýsson er í toppbaráttu U-2000 mótins.

Þór Valtýsson er í toppbaráttu U-2000 mótins.

Tinna Kristín Finnbogadóttir nýtti sér veikleika í peðastöðu svarts til að vinna öruggann sigur á fyrsta borði gegn Sigurjóni Þór Friðþjófssyni. Þór Valtýsson náði óþægilegri leppun á riddara Jóhönnu Bjargar Jóhannsdóttur sem réði úrslitum í viðureign þeirra. Agnar Darri Lárusson tefldi að krafti á þriðja borði og náði kóngi Lofts Baldvinssonar í mátnet á miðju borði. Lisseth Mendez Acevedo vann öruggan sigur á Jóhanni Arnari Finnssyni á fjórða borði og á fimmta borði tefldi sonur Þórs Valtýssonar – Páll – góða skák og hafði sigur gegn Arnari Heiðarssyni. Á sjötta borði tefldist svo lengsta skák kvöldsins á milli Benedikts Þórissonar og Páls Andrasonar þar sem lærdómsríkt peðsendatafl kom upp. Umræðan gekk í bylgjum í Birnu-Kaffi þar sem mismunandi mat var lagt á stöðuna. Að lokum kom í ljós að Páll gat nýtt sér leikþröng og þrípeð Benedikts til að gera út um skákina. Bæði Sigurjón Haraldsson og Hrund Hauksdóttir nýttu sér rýmri stöður til að vinna sínar skákir á sjöunda og áttunda borði. Á níunda og tíunda borði lék hvítur gróflega af sér sem kostaði liðsafla og að lokum skákirnar.

Það var hart barist í fimmtu umferðinni.

Það var hart barist í fimmtu umferðinni.

Yngstu keppendurnir tefldu margar athyglisverðar skákir en hvítu mönnunum gekk ekki nægilega vel á neðri borðunum og meðan því var öfugt farið á þeim efri. Nú eru tvær umferðir eftir og því upplagt að kíkja á skákstað, fá sér góðgæti hjá Birnu og fylgjast með ungum, sem og reynslumeiri keppendum heyja baráttu í skáksal. Sjötta umferð fer fram næstkomandi miðvikudag og hefst kl. 19.30 en þá mætast meðal annars Tinna og Þór. Stöðu og úrslit má sjá á Chess-Results en þar má einnig finna skákir mótsins sem Daði Ómarsson hefur slegið inn.