Guðmundur að tafli á Spáni



Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson setur markið hátt í skákinni og stefnir ótrauður á stórmeistaratitil.  Hann hefur því verið mjög ötull í þátttöku í skákmótum undanfarin misseri og tefldi til að mynda á annað hundrað skákir á síðasta ári ásamt því að hafa þegar teflt rúmlega eitthundrað skákir það sem af er þessu ári.  Þessi mikla ástundun Guðmundar, ásamt öflugum stúderingum, hefur skilað honum bætingu upp á tæplega eitthundrað Elo stig síðastliðið árið, en hann hefur þegar náð stórmeistaraáfanga.  Þrjá slíka áfanga þarf til að hljóta útnefningu stórmeistara ásamt því að ná 2500 Elo stigum en Guðmundur hefur núna tæplega 2450 stig og einungis tímaspursmál hvenær hann rýfur 2500 stiga múrinn.

 

Guðmundur slær síður en svo slöku við nú í sumar og segja má að sumartörnin hafi hafist með þátttöku hans í Íslandsmótinu sem fór fram í byrjun júní en þátttöku TR-inga hefur þegar verið gerð góð skil hér.  Skömmu eftir Íslandsmótið hélt Guðmundur í heljarinnar skákreisu til Spánar þar sem hann byrjaði með þátttöku í opnu móti sem haldið var í Montcada í Katalóníu hluta landsins.

 

Mótið fór fram dagana 25. júní – 3. júlí og var teflt í tveimur flokkum.  Guðmundur tefldi í efri flokki þar sem 101 keppandi frá átján löndum tók þátt, þeirra á meðal nítján stórmeistarar og nítján alþjóðlegir meistarar.  Meðalstig keppenda voru 2261 Elo stig og var Guðmundur númer 25 í stigaröðinni.  Eftir rólega byrjun vann Guðmundur þrjár af síðustu fjórum viðureignum sínum og lauk keppni í 14.-31. sæti með 5,5 vinning í níu umferðum eftir fimm sigra, eitt jafntefli og þrjú töp.  Árangurinn samsvarar 2336 Elo stigum og stigalækkun upp á 11 stig.  Sigurvegari með 7,5 vinning var stórmeistarinn Mauricio Rios Flores sem er frá Chile.

 

Heildarúrslit má sjá hér og þá má finna sex af níu skákum Guðmundar hér en aðeins hluti skákanna úr mótinu er aðgengilegur.

 

Næst var förinni heitið til Benasque á annað opið mót sem fer fram dagana 4. júlí – 13. júlí.  Teflt er í einum flokki og er mótið mjög fjölmennt þar sem 428 keppendur frá 37 löndum taka þátt, þeirra á meðal 36 stórmeistarar og 25 alþjóðlegir meistarar.  Meðalstigin eru 1984 og er Guðmundur númer 44 í stigaröðinni.  Að loknum tveimur umferðum hefur Guðmundur fullt hús vinninga eftir sigra gegn stigalágum andstæðingum.  Að vanda má finna öll úrslit á Chess-Results.

 

Að yfirstandandi móti loknu heldur Guðmundur til Andorra þar sem hann tekur þátt í móti 20.-28. júlí, síðan til Badalona, sem einnig tilheyrir Katalóníu, en þar fer mót fram 2.-10. ágúst.  Ferðinni lýkur svo með þátttöku Guðmundar í tveimur mótum í Barcelona sem fara fram 23. ágúst – 9. september.  Það er því nóg framundan hjá Guðmundi og verður spennandi að fylgjast með gengi hans við skákborðið.