Róbert Luu, Benedikt Briem og Stefán Orri Davíðsson komust í úrslit Barna-BlitzGauti Páll Jónsson skrifar

Fjölmennt og æsispennandi laugardagsmót barna var haldið þann 25. febrúar. 32 börn tóku þátt en það sem var merkilegt við þetta mót var að þrír efstu í mótinu gátu tryggt sér þátttöku í Reykjavík Barna-Blitz sem verður í Hörpunni samhliða Reykjavíkurskákmótinu. Einnig dró til tíðinda er hópur norskra krakka mætti á svæðið og stóðu þau sig með prýði. Íslensku krakkarnir tefldu samt hraustlega til vinnings gegn Norðmönnunum, vitandi að Gamli sáttmáli er löngu fallinn úr gildi.

20180224_151239

Eftir jafnt og spennandi mót komu efstir í mark með 5,5 vinning þeir Róbert Luu og Benedikt Briem en í humátt á eftir þeim komu fimm skákmenn með fimm vinninga. Ekki nema það þó! Efstur þeirra sem hlutu fimm vinninga var Stephan Briem en þar sem hann er of gamall fyrir barnablitzið (Undirritaður leggur til að „Barna-Blitz“ verði umsvifalaust breytt í „Hraðtefli ungdómsins“) var leitað neðar í töfluna og þar var Stefán Orri Davíðsson. Eldri bróðir hans, Óskar Víkingur, hafði einmitt tryggt sér sæti í hraðskákinni nokkru áður í undankeppni hjá Víkingaklúbbnum. Mótið gekk hratt og vel fyrir sig, enda flestir keppendur vanir stórum skákmótum. Að sjálfsögðu var heitt á könnunni fyrir kaffiþyrsta foreldra og norska kennara sem fylgdust með af kostgæfni. Athygli er vakin á því að næsta laugardagsmót verður þarnæsta laugardag, þann 10. mars, því næstkomandi laugardag verða allir skákkennarar TR (og að vísu flestir aðrir skákmenn) sitjandi með sveittan skallann yfir skákum sínum í hinu æsispennandi Íslandsmóti skákfélaga. Meira um það síðar!