Reykjavíkurmót grunnskólasveita verður haldið í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 mánudaginn 6.febrúar og hefst mótið kl.17. Þetta fjölmenna skákmót, sem er árviss viðburður í reykvískri skólaskák, er samvinnuverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur.
Tefldar verða sjö umferðir eftir svissnesku kerfi. Umhugsunartími er 8 mínútur fyrir hverja skák og bætast 2 sekúndur við umhugsunartímann eftir hvern leik (8+2). Þátttökurétt hafa allir nemendur í grunnskólum Reykjavíkur í 1.-10.bekk. Allar sveitirnar keppa í einum opnum flokki og verða veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin auk þess sem þrjár efstu stúlknasveitirnar hljóta verðlaun. Hver sveit skal skipuð fjórum nemendum auk 0-4 varamanna. Áætlað er að mótinu ljúki um kl.20. Verðlaunaafhending fer fram strax að móti loknu.
Sigursveitin hlýtur nafnbótina Reykjavíkurmeistari grunnskólasveita 2017 og hlýtur farandbikar til vörslu í eitt ár. Núverandi Reykjavíkurmeistari er Laugalækjarskóli og Rimaskóli varð hlutskarpastur í stúlknaflokki.
Mikilvægt er að skólar sendi fylgdarmann með sínu liði, keppendum til halds og trausts, en ekki síður til að mótshaldið gangi hratt og örugglega fyrir sig. Æskilegt er að hver liðsstjóri stýri að hámarki tveimur sveitum.
Skráning í mótið fer fram í gegnum skráningarform á vef Taflfélags Reykjavíkur (einnig aðgengilegt á www.skak.is) og lýkur skráningu sunnudaginn 5.febrúar. Ekki verður hægt að skrá lið á mótsstað. Frekari upplýsingar um mótið má nálgast með því að senda fyrirspurn á netfangið taflfelag@taflfelag.is.