Davíð Kjartansson Skákmeistari Reykjavíkur 2013



KORNAX mótinu – Skákþingi Reykjavíkur lauk í gærkvöldi þegar spennandi lokaumferð fór fram í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur.  Fyrir umferðina höfðu Fide meistarinn Davíð Kjartansson og Omar Salama 1,5 vinnings forskot á næstu keppendur en báðir höfðu þeir unnið allar sínar viðureignir utan innbyrðis viðureignarinnar sem lauk með skiptum hlut.  Þeir höfðu því 7,5 vinning eftir að hafa verið í nokkrum sérflokki en næstir á eftir þeim með 6 vinninga komu Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson og hinn ungi og efnilegi Mikael Jóhann Karlsson.

 

Í lokaumferðinni stýrði Omar hvítu mönnunum gegn Mikaeli en Davíð hafði svart gegn Þór Má Valtýssyni.  Greinilegt var að spenna var í loftinu því sviptingar urðu töluverðar og svo fór að Mikael gerði sér lítið fyrir og sigraði Omar eftir að kóngur þess síðarnefnda var orðinn full berskjaldaður og Mikeal náði frumkvæði sem dugði til sigurs.  Á sama tíma leit út fyrir að Davíð væri í vandræðum gegn Þór sem var skiptmun yfir en slæm peðastaða Þórs kom í veg fyrir sigur og jafntefli varð niðurstaðan.

 

Þar með lauk Davíð leik með 8 vinninga og er því Skákmeistari Reykjavíkur í annað sinn en hann hlaut titilinn einnig 2008.  Omar varð annar með 7,5 vinning en Mikael nældi í þriðja sætið með 7 vinninga eftir frábæran endasprett þar sem hann sigraði Lenku Ptacnikovu í næstsíðustu umferðinni og, sem fyrr segir, Omar í þeirri síðustu.  Árangur Davíðs samsvarar 2420 Elo stigum og hækkar hann um 19 stig, Omar hækkar um 13 stig og Mikael um heil 30 stig og er stigakóngur mótsins.

 

Að öðru leyti var ekki mikið um óvænt úrslit í lokaumferðinni en þó má nefna sigur hinnar ungu og efnilegu Sóleyjar Lind Pálsdóttur á Árna Thoroddsen en Sóley hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og hækkar töluvert á stigum nú.

 

Baráttan um stigaverðlaunin var ekki síður hörð en utan verðlaunasætanna þriggja var hægt að vinna til fjögurra verðlauna í viðbót.  Bestum árangri keppenda undir 2000 stigum náði norðlendingurinn reyndi Þór Már Valtýsson en hann hlaut 6 vinninga.  Þrír keppendur komu jafnir í mark með 5,5 vinning í flokki keppenda undir 1800 stigum en það voru Hilmar Þorsteinsson, Jón Úlfljótsson og Hrund Hauksdóttir.  Hilmar varð efstur eftir stigaútreikning og hlýtur því verðlaunin.  Hinn ungi og efnilegi Dawid Kolka varð einn efstur með 5,5 vinning í flokki keppenda undir 1600 skákstigum og í flokki stigalausra varð Andri Steinn Hilmarsson hlutskarpastur með 4,5 vinning.  Miðað er við íslensk skákstig við ákvörðun stigaverðlauna.

 

Að vanda var mótahald til fyrirmyndar og umgjörðin öll hin glæsilegasta.  Skákstjórn var í höndum hinna margreyndu Ólafs S. Ásgrímssonar og Ríkharðs Sveinssonar og Birna Halldórsdóttir sá um veitingar af sinni alkunnu snilld.  Jóhann H. Ragnarsson tók myndir og þá er einnig fjöldi mynda, sem Gunnar Björnsson tók, aðgengilegur á fréttavefnum skak.is.  Sex viðureignir voru sendar út á vefnum í hverri umferð og hafði Ríkharður umsjón með þeim.  Skáksamband Íslands fær þakkir fyrir að leggja  búnaðinn til og Omar Salama og Halldóri G. Einarssyni er þakkað fyrir aðstoð í kringum útsendingarnar.  Þá sá Jóhann um innslátt skáka.

 

Að lokum þakkar Taflfélag Reykjavíkur KORNAX fyrir öflugt samstarf fjórða árið í röð.

Verðlaunasæti

  • 1. Davíð Kjartansson 8 vinningar
  • 2. Omar Salama 7,5v
  • 3. Mikael Jóhann Karlsson 7v

Besti stigaárangur

  • U2000: Þór Már Valtýsson (1971) 6v
  • U1800: Hilmar Þorsteinsson (1776) 5,5v
  • U1600: Dawid Kolka (1528) 5,5v
  • Stigalausir: Andri Steinn Hilmarsson 4,5v

Mestu stigahækkanir

  • Mikael Jóhann Karlsson 30 stig
  • Vignir Vatnar Stefánsson 25
  • Davíð Kjartansson 19
  • Sóley Lind Pálsdóttir 19
  • Þór Már Valtýsson 17
  • Óskar Long Einarsson 17
  • Felix Steinþórsson 15
  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur síðustu ára
  • Myndir (JHR)
  • Skákir