Kröftug byrjun ungu kynslóðarinnar á Skákþingi Reykjavíkur20190109_194314

Skákþing Reykjavíkur, hið 88. í röðinni, er hafið. Fjöldi þátttakenda er sá sami og fjöldi reita skákborðsins. Alls 64 þátttakendur leiða því saman riddara sína næstu vikurnar í þessu sögufræga skákmóti sem flestir af bestu skákmönnum Íslands fyrr og síðar hafa unnið. [innskot ritstjóra: Glöggir lesendur kunna að hafa talið nöfnin á þátttakendalistanum og fengið út töluna 63. Er þeim góðfúslega bent á að besta vinkona okkar allra, Skotta, er ekki á listanum, venju samkvæmt. Hún er að sjálfsögðu talin með enda hefur Skotta tekið þátt í fleiri Skákþingum en nokkur annar skákmaður.]

Stigahæsti keppandi mótsins að þessu sinni er stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson (2560) en næstir honum í stigaröðinni eru alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2424) og FIDE-meistarinn Davíð Kjartansson (2403). Núverandi Skákmeistari Reykjavíkur er Stefán Bergsson (2172).

Fjölmörg óvænt úrslit hafa litið dagsins ljós í fyrstu tveimur umferðum mótsins. Í 1.umferðinni gerði Árni Ólafsson (1301) jafntefli með svörtu gegn gamla brýninu Ögmundi Kristinssyni (1988). Í 2.umferð bar helst til tíðinda sigur Benedikts Þórissonar (1363) á Herði Garðarssyni (1667). Einnig vöktu eftirtekt sigurskákir Rayan Sharifa (1164) gegn Hjálmari Sigurvaldasyni (1528) og Ásthildar Helgadóttur (1065) gegn Tómasi Ponzi (1527). Auk þess gerði Arnar Valsson (1249) jafntefli við Sigurð Frey Jónatansson (1658) og sömu jafnteflissögu er að segja af skák Bjarts Þórissonar (1202) og Batel Goitom Haile (1549). Sannarlega kröftug byrjun hjá ungu kynslóðinni. Við þetta er að bæta að heilladísirnar voru ekki með Skottu í 1.umferð og freistar hún þess að ná vopnum sínum á ný með yfirsetu í næstu umferð.

Skákmeistari Reykjavíkur, Stefán Bergsson, hefur titilvörn sína af krafti og hefur unnið báðar sínar skákir. Það hefur stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson einnig gert. Þeir mætast einmitt í stórslag 3.umferðar og mun Stefán stýra hvítu mönnunum. Davíð Kjartansson hefur einnig unnið báðar sínar skákir en hann tekur yfirsetu í næstu umferð. FIDE-meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2296) hefur líka fullt hús og mætir Júlíusi Friðjónssyni (2159) í næstu umferð. Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson hefur 1,5 vinning en hann varð að taka yfirsetu í 1.umferð vegna anna við taflborðin í Hastings á Englandi. Sömu sögu er að segja af Vigni Vatnari Stefánssyni (2248) en pilturinn gerði góða ferð til Hastings þar sem hann var hársbreidd frá því að landa sínum fyrsta áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

3.umferð mótsins verður tefld á sunnudag og verða klukkur settar í gang stundvíslega klukkan 13:00. Sex efstu borðin verða í beinni útsendingu og eru það eftirtaldar viðureignir:

SÞR#3

Nánari upplýsingar um einstök úrslit og stöðu mótsins má nálgast á Chess-Results.