Jóladagatal TR – #2 Giljagaur



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

giljagaur

Mynd: Búi Kristjánsson

Giljagaur hefur að undanförnu teflt mikið á chess.com. Hann teflir þar undir nafninu The-Ravine-Dude, en alls ekki segja neinum – hann vill halda dulnefninu leyndu áfram. Giljagaur finnst skemmtilegast að tefla hraðskákir, helst 3 mínútna skákir, en bræður hans segja að hann eigi miklu frekar að tefla með lengri tímamörkum og helst með viðbótartíma svo að skákirnar hans endi ekki bara í einhverri vitleysu. Giljagaur er nefnilega hrikalega tapsár og oft enda skákkvöldin hans fyrir framan tölvuna þannig að í reiði sinni kastar hann tölvumúsinni, eða öðru lauslegu, í hellisveggina í kringum sig. Hann hefur þegar eyðilagt fjórar mýs, tvær spjaldtölvur og gamla iPhone símann hennar Grýlu. Sigurlaug, skákþjálfari hjá TR, reyndi einu sinni að bjóða Giljagaur að koma á stúlknaæfingu í TR svo hann gæti lært þar bæði kurteisi og rétta framkomu við taflborðið – en það er eins og oft áður að það gengur illa að kenna gömlum hundi að sitja.

Í stöðu dagsins er Giljagaur með hvítt í 3 mínútna skák á chess.com gegn Dietmar Kolbus; 2300 stiga súrkálsbónda frá Þýskalandi. Giljagaur hefur komið f-peðinu sínu alla leið til f6 og er tilbúinn að máta svartan á g7 með drottningu – en það sem þvælist fyrir honum er svarti riddarinn á e6 sem valdar g7-reitinn.

giljagaur-stodumynd

Hvaða leik fann Giljagaur í stöðunni, sem byggir á þemanu ofhlaðinn maður, sem tryggði honum á endanum sigur og olli því að engin raftæki skemmdust í hellinum þetta kvöldið?

Skrifaðu lausnirnar 13 hjá þér og sendu þær svo allar inn á bivark@gmail.com fyrir kl. 20:00 á Jóladag – og þú gætir unnið veglegan jólaglaðning!