HM ungmenna: Vignir með 3,5 af 6



Í gær fóru fram tvær umferðir á HM ungmenna sem fram fer í Durban, S-Afríku, og reyndi því á okkar mann, Vigni Vatnar Stefánsson, líkt og hina tæplega eittþúsund keppendurnar.  Í fyrri umferðinni, þeirri fimmtu, hafði Vignir hvítt gegn norskum pilti með 1836 Elo-stig og vann Vignir góðan sigur eftir snarpa sókn eins og svo oft vill verða hjá kauða.

Tefld var drottningarindversk vörn þar sem skákin var í jafnvægi lengstum en í miðtaflinu fóru hlutirnar að gerast.  Grípum niður í skákina eftir 24. leik svarts.

Svartur var hér að leika 24..Hab8 en betra var t.d. 24..Kh8.  Eftir leik svarts stendur hvítur betur og svartur þarf að gæta að sér vegna veikleika á hvítu reitunum á kóngsvæng.  Hér leikur Vignir best 25. Bf5 en hann velur að leika 25. h5 sem gefur svörtum færi á að verjast.

Hér er best fyrir svartan að leika 25..d3 og loka þar með b1-h7 skálínunni sem öflug drottning hvíts vakir yfir.  Hvítur má ekki taka d-peðið því þá leikur svartur 26. Bxg3+ og drottningin fellur.  Svartur lék hinsvegar 25..He8 og eftir 27 leiki var staðan orðin vænleg fyrir hvítan.

Hér var svartur að leika 27..He5 sem Vignir svaraði með 28. Be6+ og svartur svarar að bragði með 28..Kh8

Áfram tefldist 29. Dg6 Bf8, 30. Hxe5 fxe5.

Hvíta staðan er nú orðin afar vænleg og fátt um varnir hjá svörtum enda menn hans úr leik á drottningarvæng.  31. Bxh6! c4 (svartur gat reynt 31..Db7).

32. Bxg7 Bxg7 33. h6! Dc7 34. Bf7 og svartur gafst upp enda staðan hrunin.  Hvíti hrókurinn kemst auðveldlega í fjörið með Hh1-Kg2 o.s.frv.

Flott skák hjá Vigni sem sýnir þarna enn og aftur hvassan skákstíl og kemur andstæðingi sínum úr jafnvægi með snarpri sókn.  Skákina í heild sinni má nálgast hér.

Í seinni viðureign dagsins, sjöttu umferð, hafði Vignir aftur hvítt, nú gegn fyrrverandi N-Ameríku meistara, Fide meistaranum Aravind Kumar sem hefur 2152 Elo-stig.  Eftir langa setu beið Vignir því miður lægri hlut og er nú í 31.-42. sæti með 3,5 vinning en aðeins er 1,5 vinningur í efstu keppendur sem eru sjö talsins en það er harla óvenjulegt þegar svo langt er liðið á mót.

Sjöunda umferð hefst á morgun fimmtudag kl. 14 og þá stýrir Vignir svörtu mönnunum gegn heimamanni með 1702 Elo-stig og er sá Fide meistari eftir að hafa orðið S-Afríku meistari 2012 í flokki u8 og u10.

  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins
  • Beinar útsendingar(mótssíða)
  • Beinar útsendingar (Chessdom)