Góður árangur TR – liða á Íslandsmóti unglingasveitaÍslandsmót unglingasveita 2018 fór fram í Garðaskóla í Garðabæ í dag, 8. desember. Alls tóku 18 lið þátt frá fimm skákfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Taflfélag Reykjavíkur átti þar flest liðin, sjö að tölu. Fjölnir tefldi fram fjórum liðum, Skáksamband Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjanes var með þrjú lið, Huginn var með tvö lið og Víkingaklúbburinn tvö lið. Krakkarnir úr TR stóðu sig frábærlega vel, sýndu mikla seiglu ásamt skemmtilegri taflmennsku og góðri skákhegðun við skákborðið og utan þess. Fjöldi skákkrakka frá Taflfélagi Reykjavíkur á þessu móti taldi 31. Strákarnir voru 21 og stelpurnar 10. Taflfélag Reykjavíkur var með langflestar stelpurnar í þessu móti og sýnir það hve miklum árangri við í TR höfum náð í að vinna að því að jafna út þátttöku drengja og stúlkna í skákinni.

20181208_153554

A-liðið sem var skipað tveimur stúlkum og tveimur drengjum varð í 2. sæti í mótinu með 20,5 vinning. Þetta voru þau Alexander Mai, Batel Goitom Haile, Kristján Dagur Jónsson og Freyja Birkisdóttir. Þau unnu fimm viðureignir, gerðu jafntefli við Hugin A, sem lenti í 3. sæti og töpuðu með hálfum vinningi gegn 3,5 gegn Íslandsmeisturunum frá Skáksambandi Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjanes, sem hlaut 27 vinninga.

B-liðið varð í 5. sæti í mótinu með 16,5 vinning. Þeir sem tefldu hér voru fjórir drengir, sem sýnt hafa mikla ástundun og framfarir undanfarin misseri, þeir Benedikt Þórisson, Árni Ólafsson, Arnar Valsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson.

C-liðið varð í 9. sæti með 14,5 vinning. Hérna tefldu sömuleiðis gífurlega iðnir krakkar, sem eins og flest öll sem tefldu fyrir TR í dag sækja grimmt skákæfingar félagsins. Þetta voru þau Bjartur Þórisson, Iðunn Helgadóttir, Adam Omarsson, Soffía Arndís Berndsen og Einar Tryggvi Petersen.

20181208_153524

D-liðið átti góða spretti í mótinu og varð í 6. sæti. Þau fengu 16 vinninga og verðlaun fyrir að vera besta D-liðið! Þau sem tefldu hér voru þau Anna Katarina Thoroddsen, Jósef Omarsson, Ásgeir Valur Kjartansson, Esther Lind og Hildur Birna Hermannsdóttir.

E-liðið varð í 13. sæti, og vann til verðlauna sem besta E-liðið! Þau sem tefldu hér voru þau Markús Orri Jóhannsson, systurnar Katrín María og Elín Lára Jónsdætur og Wihbet Goitom Haile, litla systir Batel sem tefldi í A-liðinu.

F-liðið varð í 15. sæti með 10 vinninga. TR var eitt félaga með E, F og G-lið, þannig að hér fengu drengirnir fjórir verðlaun fyrir besta F-liðið, en það voru þeir Anton Freyr Hallgrímsson, Freyr Grímsson, Antoni Pálsson Paszek og Jón Markús Torfason.

G-liðið varð í 18. sæti með 5,5 vinninga, en fékk jafnframt verðlaun fyrir að vera besta G-lið landsins. Hér tefldu yngstu liðsmenn TR á þessu móti og þeir voru margir hverjir að tefla í fyrsta sinn í liðakeppni. Þetta voru drengir frá byrjendahópnum hans Torfa Leóssonar, þeir Atli Snær Sigurðsson, Svavar Óli Stefánsson, Ísak Kozlowski, Óli Steinn Thorsteinsson og Bjarki Snær Sigurðsson.

Frábær árangur hjá skákkrökkunum í TR á þessu móti og allt fer þetta í reynslubankann!

TR_Hópmynd

Eins og við höfum gert að hefð, þá tókum við hópmynd af TR-hópnum eftir verðlaunaafhendinguna. Við það tilefni fékk Alexander Mai, sem tefldi á 1. borði í A-liðinu, konfektkassa að gjöf með þökk fyrir taflmennsku eða „vel unnin störf“ fyrir hönd TR í gegnum árin, en hann er í 10. bekk og var því að ljúka þátttöku í þessu móti. Í gegnum árin höfum við á þennan hátt heiðrað þá unglinga sem tefla í síðasta sinn á Íslandsmóti unglingasveita með Taflfélagi Reykjavíkur.

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum skákkrökkunum sem tefldu fyrir hönd félagsins á Íslandsmóti unglingasveita í dag. Einnig þökkum við foreldrum fyrir öll samskiptin í undirbúningi að þátttöku að mótinu, auk þeirra sem sáu sér fært að vera á mótsstað til halds og trausts. Liðsstjórar fá einnig bestu þakkir, en það voru þau Daði Ómarsson, Una Strand Viðarsdóttir, Torfi Leósson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir (pistlahöfundur). Loks viljum við koma þökkum á framfæri til Páls Sigurðssonar mótshaldara hjá TG og skákstjóra og Ingibjörgu Eddu Birgisdóttur skákstjóra fyrir flotta framkvæmd mótsins.

Við óskum Skáksambandi Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjanes innilega til hamingju með glæsilegan sigur í mótinu!

Öll úrslit mótsins og lokastöðu má finna á Chess-Results.