Hannes Hlífar og Guðmundur sigruðu í El SalvadorStórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson urðu efstir og jafnir á opnu alþjóðlegu móti í San Salvador í gær en þeir hlutu sjö og hálfan vinning af níu mögulegum.  Báðir fóru þeir taplausir í gegnum mótið!

Mótið var sterkt en meðal rúmlega 130 keppenda voru sex stórmeistarar og níu alþjóðlegir meistarar.  Fyrir níundu og lokaumferðina var Guðmundur einn efstur með sjö vinninga.  Hannes var þá í öðru til fimmta sæti hálfum vinning á eftir. Í síðustu umferðinni gerði Guðmundur jafntefli við alþjóðlega meistarann Carlos Juarez Flores (2427) meðan Hannes Hlífar sigraði stórmeistarann Omar Almeida Quintana (2485). 

Frábær árangur hjá þeim félögum og hækka þeir báðir vel á stigum, Guðmundur um tæp 24 og Hannes tæp níu.  Guðmundur var ekki langt frá því að krækja sér í stórmeistara áfanga fyir frammistöðuna en aðeins vantaði upp á meðalstig andstæðinganna til þess.

Taflfélag Reykjavíkur óskar þeim félögum til hamingju með árangurinn!