Gauti Páll með öruggan sigur á ÞriðjudagsmótiGauti Páll Jónsson átti ekki í teljandi vandræðum með að tryggja sér sigur á þriðja Þriðjudagsmóti ársins þ. 17. janúar síðastliðinn. Í síðustu umferð dugði honum jafntefli eins og skákstjóri, sem jafnan er talsmaður friðar og sátta, benti honum á. Hann skeytti þó engu um það en sigldi enn einum vinningnum átakalítið í hús og hirti þar með óskorað fyrsta sæti. Í öðru sæti og jafnframt sá sem varð hæstur miðað við frammistöðustig, varð síðan Sigurbjörn Hermannsson sem kastaði þar mörgum stigahærri skákmönnum aftur fyrir sig. Sigurbjörn tapaði fyrir Gauta í fyrstu umferð en leit ekki til baka eftir það og endaði með 1785 frammistöðustig fyrir mótið og hækkar um rétt tæp 100 stig.

Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má nálgast hér á chess-results.

Næsta mót verður 24. janúar og hefst, eins og jafnan, stundvíslega klukkan 19:30, í Skákhöll TR í Faxafeni. Fimm umferðir; 10 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.