Davíð efstur á HaustmótinuStigahæsti keppandi Haustmótsins, Fide meistarinn Davíð Kjartansson, er efstur með fullt hús vinninga að loknum tveimur umferðum á áttatíu ára afmælismóti Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur. Davíð lagði Dag Ragnarsson örugglega með hvítu mönnunum í annarri umferð sem fór fram í gærkvöldi. Næstir í A-flokki með 1,5 vinning eru Þorvarður Fannar Ólafsson og Oliver Aron Jóhannesson eftir sigur þess fyrrnefnda á Gylfa Þór Þórhallssyni og jafntefli Olivers við alþjóðlega meistarann Sævar Bjarnason. Þá gerðu einnig jafntefli Jón Trausti Harðarson og Jón Árni Halldórsson en viðureign Skákmeistara TR, Kjartans Maack, og Fide meistarans Þorsteins Þorsteinssonar var frestað.

 Í þriðju umferð, sem fer fram á sunnudag, má finna nokkar athyglisverðar viðureignir en þá mætast m.a. Fide meistararnir Þorsteinn og Davíð, félagarnir Dagur og Jón Trausti sem og TR-ingarnir Þorvarður og Kjartan. Í B-flokki ber það helst til tíðinda að stigalægsti keppandi flokksins, Björn Hólm Birkisson, er efstur með fullt hús eftir sigur á hinum spænska Damia Morant Benet. Framganga hins unga og efnilega Björns þarf þó ekki að koma á óvart því hann hefur verið í mikilli framför að undanförnu. Má þar nefna að á þessu ári hefur hann hækkað um á annað hundrað Elo-stig sé komandi stigalisti í október tekinn með í reikninginn. Eftir fyrstu tvær umferðir Haustmótsins er Björn með hækkun upp á tæp 60 stig til viðbótar svo það er ljóst að hann mun gera harða atlögu að sigri í B-flokknum. 

Jafnir í 2.-3. sæti með 1,5 vinning eru Sverrir Sigurðsson og Þjóðverjinn Christopher Vogel en þeir gerðu innbyrðis jafntefli í gær. Í þriðju umferð mætir m.a. Björn Hólm öðrum ungum og efnilegum skákmanni, Dawid Kolka, og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri viðureign.

 

Í C-flokki deilir tvíburabróðir Björn Hólms, Bárður Örn, efsta sætinu með öðrum ungum og efnilegum TR-ingi, Guðmundi Agnari Bragasyni, en þeir hafa báðir fullt hús vinninga. Bárður sigraði Siurans Estanislau Plantada örugglega í snarpri sóknarskák en Guðmundur fékk frían vinning þar sem andstæðingur hans mætti ekki til leiks. Jóhann Arnar Finnsson og Felix Steinþórsson koma næstir með 1,5 vinning og mætast þeir fjórir efstu innbyrðis í þriðju umferð; Felix hefur hvítt gegn Guðmundi og Jóhann Arnar hvítt gegn Bárði.

Opni flokkur Haustmótsins er alltaf sérstaklega skemmtilegur þar sem í honum eru gjarnan margir ungir krakkar að spreyta sig í fyrsta sinn á kappskákmóti. Að þessu sinni telur flokkurinn 25 keppendur og eru fimm þeirra með fullt hús að loknum tveimur umferðum; Alex Cambray Orrason, Ólafur Evert Úlfsson, Tryggvi K. Þrastarson, Aron Þór Mai og Kristófer Kjartan Halldórsson. Alex og Kristófer mætast í þriðju umferð sem og Aron og Ólafur.

 

Sem fyrr segir fer þriðja umferð fram næstkomandi sunnudag og hefst hún kl. 19.30. Teflt er í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 og eru áhorfendur velkomnir. Heitt á könnunni og ljúffengar kræsingar gegn hóflegu gjaldi í Birnu-kaffi.

  • Úrslit, staða og pörun