Björn Ívar Karlsson Íslandsmeistari í Fischer Random 2015!fr15 (4)

Síðastliðið föstudagskvöld fór fram Íslandsmótið í Fischer Random á skemmtikvöldi Taflfélags Reykjavíkur.

Margir sterkir skákmenn voru mættir til leiks og þeirra á meðal ríkjandi meistari frá síðasta ári, alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson. Hann sigraði þá með fádæma yfirburðum og fékk 11.5 vinninga úr 12 skákum. Fáir áttu von á því að það met yrði slegið í ár.

fr15 (6) fr15

Björn Ívar Karlsson hin geðprúði skákkennari með meiru fór hamförum í byrjun mótsins í ár. Hann hóf leik með sigri á Óskari Long Einarssyni í fyrstu umferð og gerði sér svo lítið fyrir og sigraði Jón Viktor Gunnarsson í þeirri annarri. Í þriðju umferð mætti hann íslandmeistaranum Guðmundi Kjartanssyni og lagði hann einnig að velli. Arnar E. Gunnarsson reyndi svo að stöðva sigurgöngu hans í fjórðu umferð en hafði ekki erindi sem erfiði. Þegar fyrsta hlé var gert til Billjardbars heimsóknar leiddi því Björn Ívar með fullu húsi og hafði lagt að velli þrjá alþjóðlega meistara, já og Óskar Long! Næstir honum komu svo Guðmundur, Jón Viktor og Daði Ómarsson með þrjá vinninga.

fr15 (5) fr15_

Eftir að menn höfðu vætt kverkarnar var hafist handa við taflið að nýju. Nú var röðin komin að Doninum sjálfum, Róbert Lagerman að reyna að stöðva pilt. Hjó hann ansi nærri því og í æðisgengnu tímahraki átti hann fjórar sekúndur á klukkunni gegn einni sekúndu Björns. Sá síðarnefndi barði þó afar hratt og örugglega á seinustu sekúndunni og svo fór að Doninn sjálfur féll á tíma.

fr15 (3)

Margur meistarinn reyndi að stöðva Björn eftir þetta en hann reyndist í þvílíkum vígaham að enginn mátti sín gegn hörku hans og eftirfylgni við skákborðið. Svo fór að lokum að Björn Ívar kom í mark með fullu húsi vinninga, 12 af 12 mögulegum (!) og bætti því um betur frábæran árangur Guðmundar frá því í fyrra. Nokkuð ljóst er að þessi árangur verði ekki toppaður, nema þá að mótshaldarar bregði á þann leik að fjölga umferðum í framtíðinni. Til þess er allnokkurt svigrúm, enda eru Fischer Random stöðurnar alls 960 talsins.

fr15 (1)

Jafnir í öðru til þriðja sæti urðu alþjóðlegu meistararnir Guðmundur og Arnar Erwin með 9 vinninga eða heilum þremur vinningum á eftir hinum nýja Íslandsmeistara í Fischer Random.

fr15 (2)

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim sem tóku þátt og óskar Birni Ívari innilega til hamingju með titilinn og frábæran árangur. Björn er nú kominn í pottinn fyrir lokamótið sem fram fer í maí en þá keppa sigurvegarar skemmtikvöldanna í vetur sín á milli um titilinn skemmtikvöldakóngur Íslands 2015.