Fjölmenn jólaskákæfingIMG_7740

Það myndast skemmtileg stemning þegar fjölskyldumeðlimir tefla saman í liði.

Jólaskákæfing Taflfélags Reykjavíkur var vel sótt bæði af börnum og fullorðnum og áttu gestir notalega samverustund á þessari sannkölluðu fjölskylduhátíð.

Tefldar voru fimm umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma þar sem fjölskyldur og vinir öttu kappi í tveggja manna liðum. Sem fyrr voru liðin nefnd fjölbreyttum og skemmtilegum nöfnum sem í flestum tilvikum tengdust jólunum.

IMG_7761

Sigurvegarar fjölskyldumótsins.

Hlutskarpasta liðið reyndist vera Jólasveinarnir en þar tefldi á fyrsta borði hinn stórefnilegi Arnar Milutin. Með honum var hinn ungi bróðir hans Kristján Atli, en Heiðar Ásberg Atlason, faðir þeirra, var þeim bræðrum til halds og trausts og tefldi jafnframt nokkrar skákir.

Í humátt á eftir sigurliðinu komu þeir skákbræður og stórvinir Kristján Dagur og Stefán Geir en lið þeirra hét því frumlega nafni Mandarínumátið og jólagambíturinn. Þeir tefldu vel og brostu mikið alla æfinguna eins og þeirra er von og vísa.

IMG_7732

Jólaandinn var í fyrirrúmi á lokaæfingu ársins.

Í þriðja sæti urðu Jólaskákmeistararnir, skipað Róberti Luu og Ísaki Orra. Þeir voru einungis hálfum vinningi frá 2. sætinu.

IMG_7764

Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir á veg og vanda að vel sóttum stúlknaæfingum í vetur.

Að móti loknu fór fram verðlaunaafhending fyrir ástundun og árangur á skákæfingum TR þetta haustmisseri sem senn er á enda.