Arnljótur Sigurðsson öruggur sigurvegari á ÞriðjudagsmótiArnljótur Sigurðsson nýtti tímann vel á Þriðjudagsmóti í síðustu viku og lét ekki efnishyggjuna ná tökum á sér, frekar en fyrri daginn. Ef litið var á skákir hans, þegar nokkuð var liðið á, var hann yfirleitt með mun minni tíma og peði eða tveimur undir í nokkuð tvísýnum stöðum. Alltaf reyndust þó bætur meira en nógar, því hann vann allar fjórar skákirnar og sigldi vinningunum nokkuð örugglega heim. Enn og aftur varð baráttan um 2. sætið harðari og þar urðu þeir Hörður Jónasson og Helgi Hauksson hlutskarpastir en Hörður hærri á stigum. Loks var stigahástökkvarinn Kristján Dagur í 4. sæti.

Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.

Næsta þriðjudagsmót átti að vera 30. mars en daginn eftir mótið sem greint er frá hér að ofan, skelltu yfirvöld í lás af sóttvarnarástæðum, eins og kunnugt er. Við bíðum því til 15. apríl með frekari tilkynningar og skákmenn fylgjast bara með hvað verður í boði í netheimum í staðinn, um og eftir dymbilviku og páska.