Þriðjudagsmót í gær: Vignir Vatnar sigrar ennÞað var með rólegra móti yfirbragðið á Þriðjudagsmóti gærdagsins sem var það 14. í röðinni; þátttakendur sjö sem er umtalsvert færra en hefur verið undanfarið. Við því var að búast; vel skipað Haustmót TR nýhafið en þar taka þátt margir af þeim sem hafa verið ötulir á þriðjudögum hingað til. Og svo var það landsleikurinn Albanía-Ísland. Illu heilli var ákveðið að fylgjast með gangi mála þar á milli umferða og varð smám saman þyngra yfir mönnum fyrir vikið, þó það hafi ekki haft sýnileg áhrif á taflmennskuna. Vignir Vatnar Stefánsson tók upp þráðinn frá því fyrir tveimur vikum og vann allar skákir sínar en í öðru sæti varð (eins og fyrir hálfum mánuði) Frakkinn knái, Aasef Alashtar sem tapaði bara fyrir Vigni.

Til að tjá sorg og samstöðu með íslenska karlalandsliðinu verða úrslit ekki birt á chess results að þessu sinni.

Þriðjudagsmótin verða í viku hverri í vetur, hvað sem líður öðrum mótum og landsleikjum og hefjast kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tímamörk eru 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma og reiknast mótin til atskákstiga.