Gagginn 2015 á sjötta skemmtikvöldi TR!Gagginn 2015 fer fram næstkomandi föstudagskvöld (27. feb) á sjötta skemmtikvöldi Taflfélags Reykjavíkur í vetur.  Mótið hefst 20.00  Gagginn er sveitakeppni fyrrverandi nemenda í grunnskólum landsins.  Fjórir skákmenn eru í hverju liði og þurfa liðsmenn hvers skóla að hafa stundað þar nám á einhverjum tímapunkti allavegana einn vetur og helst að hafa náð prófum á sæmilega vinundandi hátt.  Gömul bekkjarmynd eða prófskírteini sem sannar skólasókn æskileg, en þó ekki nauðsyn.

 

Fyrirkomulagið verður eftirfarandi.

 1. Liðakeppni, fjórir keppendur í hverri sveit og skal þeim styrkleikaraðað.  (Skákstig, ekki árangur á samræmdu prófunum).  Heimilt er að hafa 2 varamenn í hverju liði.
 2. Fjöldi umferða og fyrirkomulag fer eftir fjölda sveita.  Stefnt er að því að hafa sirkað 12 umferðir.
 3. Tímamörk eru alþjóðlegu hraðskáktímamörkin  3 mín + 2 sek á leik
 4. Nái menn ekki í sveit, þá er heimilt að hafa einn lánsmann í liðinu en sá verður að hafa lokið grunnskólaprófi en má ekki hafa meira en ca. 2100 elo stig.  Lið sem notar lánsmann getur unnið til verðlauna en ekki heiðursnafnbótina Gagginn 2015
 5. Það lið sem sigrar Gaggann 2015 fær eitt sæti í úrslitum um Skemmtikvöldakónginn 2015.  Það er í höndum viðkomandi liðs að velja keppenda í þá rimmu.  Geti liðsmenn ekki komið sér saman um hverjum hlotnist sá heiður verður árangur á samræmdu prófunum látinn gilda.
 6. Gerð verða hlé á taflmennskunni til Billjardbarsferða eftir þörfum og óskum skákmanna.
 7. Verðlaun:  1. Verðlaun – 8000 kr. úttekt á Billanum  2. Verðlaun – 5000 kr. úttekt á Billanum 3. Verðlaun.  – 2000 kr. úttekt á Billanum.
 8. Sérverðlaun upp á 5000 kr. úttekt á Billanum verða veitt því liði sem mætir í flottasta liðsbúningnum.
 9. Aldurstakmark er 20 ár og rétt er að geta þess að áfengisbann ríkir í húsakynnum Taflfélagsins líkt og í grunnskólum.
 10. 2000 kr. þátttökugjald á sveit.
 11. Sigursveitin hlítur nafnbótina Gagginn 2015

Skráning fer fram á staðnum og menn beðnir um að mæta tímanlega.