Verðandi stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson sigraði á Stórmóti TR og Árbæjarsafns



Vignir Vatnar Stefánsson hefur gert það að vana sínum í seinni tíð að vinna hraðskákmót með fullu húsi eða því sem næst og brá ekkert út af því, síðastliðinn sunnudag á árlegu Stórmóti TR og Árbæjarsafns. Þetta var jafnframt síðasta mótið sem hann tók þátt í sem alþjóðlegur meistari, því hann hlaut stórmeistaratilnefninguna formlega tveimur dögum síðar! Honum er hér með óskað hjartanlega til hamingju með það!

Thor og KjartanMótið var annars aðeins seinna á ferðinni í ágúst en oftast hefur verið, vegna viðburða á safninu um miðjan mánuðinn. Ekki þurfti að koma á óvart að stigahæstu mennirnir, þeir Vignir Vatnar og Helgi Áss Grétarsson höfðu nokkra yfirburði og tóku frá efstu sætin. Þeir félagarnir mættust strax í 3. umferð og þar hafði Vignar Vatnar betur. Niðurstaðan varð því sú að Vignir varð í efsta sæti með fullt hús en næstur kom Helgi Áss með sex vinninga. Í 3. sæti varð Eiríkur K. Björnsson með 4½ vinning en hann varð jafnframt jafntefliskóngur mótsins með þrjú slík sem telst trúlega nokkuð óvenjulegt á hraðskákmóti. Eins og ævinlega fylgir því skemmtileg stemning að tefla við þessar óvenjulegu, en ágætu aðstæður í Kornhlöðunni á Árbæjarsafni en flestir sem eru með einu sinni, verða gjarnan fastagestir á mótinu.

Önnur úrslit og lokastöðu mótsins má annars sjá hér.