Uppgjör Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur 2017



Haustmót Taflfélags Reykjavíkur, hið 84. í röðinni, var haldið í nýafstöðnum septembermánuði, nánar tiltekið dagana 6.-24.september. Mótið var óvenjulegt fyrir þær sakir að mótshaldarar brugðu á það ráð að hverfa frá hinni hefðbundnu flokkaskiptingu til þess að mæta dræmri skráningu. Því tefldu þátttakendurnir 30 í einum opnum flokki. Það er nokkur ráðgáta hví þátttaka í eina flokkaskipta opna kappskákmótinu á Íslandi er ekki betri, sérstaklega í ljósi háværra radda sterkari skákmanna í skáksamfélaginu um að mótshaldarar eigi að flokkaskipta mótum. Því skal þó haldið til haga að yfirstandandi haustmánuðir eru einstaklega annasamir hjá íslenskum skákmönnum og skaraðist Haustmótið við þrjú alþjóðleg skákmót, tvö erlendis og eitt heima fyrir. Hvað sem því líður þá var hraustlega tekist á í umferðunum níu, margar fléttur smíðaðar, óvæntir sigrar og heilu bílfarmarnir af skákstigum fluttust á milli skákmanna.

 

Verðlaunahafar

Hjörvar Steinn Grétarsson bar sigur úr býtum á mótinu og hlaut 8 vinninga í skákunum níu. Magnús Pálmi Örnólfsson nældi sér í 7 vinninga sem fleytti honum í 2.sæti og alþjóðlegi meistarinn Einar Hjalti Jensson lauk tafli í 3.sæti með 6,5 vinning. Í 4.-5. sæti röðuðu sér Björgvin Víglundsson og Þorvarður Fannar Ólafsson með 6 vinninga og fá þeir fyrir vikið þátttökurétt á Skákþingi Reykjavíkur án endurgjalds.

Bókaverðlaun voru veitt í mótinu í þremur stigaflokkum. Í flokki undir 1400 stigum bar Árni Ólafsson sigur úr býtum með 4,5 vinning, sama vinningafjölda og Benedikt Þórisson en reyndist ofar eftir stigaútreikning. Benedikt Þórisson fór þó ekki tómhentur heim því hann var sannarlega efstur í flokki skákmanna undir 1200 stigum. Í flokki stigalausra var Soffía Berndsen fremst á meðal jafningja með 3 vinninga, sama vinningafjölda og Kjartan Karl Gunnarsson, en ofar eftir stigaútreikning. Til hamingju allir verðlaunahafar!

IMG_9384

Hjörvar Steinn Grétarsson fór með sigur af hólmi á Haustmóti TR 2017.

Sigurvegarinn

Stórmeistarinn og hinn nýbakaði faðir, Hjörvar Steinn Grétarsson, var langstigahæstur keppenda og því fyrirfram talinn sigurstranglegastur. Raunar var Hjörvar Steinn eini stórmeistarinn og einn þriggja titilhafa. Líkt og skákmenn þekkja vel –sumir betur en aðrir- þá er vinningur ekki í húsi þó stigamunur sé mikill. Þessu fékk Hjörvar Steinn að kynnast því hann mátti hafa sig allan við í nokkrum viðureignum. Tveir skákmenn héldu jöfnu gegn stórmeistaranum, þeir Magnús Pálmi Örnólfsson sem barðist um á hæl og hnakka tveimur peðum undir og Þorvarður Fannar Ólafsson sem kann einkar vel við sig í glímu við hákarlana. Þá átti Einar Hjalti Jensson í fullu tré við stórmeistarann en Hjörvar Steinn klóraði sig fram úr einkar athygliverðu endatafli og hafði þar mikilvægan sigur í toppbaráttunni. Hjörvar Steinn lauk keppni með 8 vinninga í skákunum níu og var heilum vinning fyrir ofan næsta mann. Sannarlega vönduð vinnubrögð og öruggur sigur.

Það er mikið ánægjuefni þegar sterkustu skákmenn þjóðarinnar sjá sér fært að tefla á skákmótum taflfélaga. Það er mikil lyftistöng fyrir mótahald félaga og jafnframt hvatning fyrir skákmenn að tefla í mótum þar sem þeir hafa þess kost að tefla í sama sal og meistararnir, og jafnvel tefla við þá ef svo ber undir. Stjórn Taflfélags Reykjavíkur óskar Hjörvari Steini innilega til hamingju með glæsilegan sigur, og um leið eru honum færðar þakkir fyrir að heiðra okkur með nærveru sinni.

 

Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur

Björgvin Víglundsson (2137) varð hlutskarpastur félagsmanna Taflfélags Reykjavíkur en hann hlaut 6 vinninga í níu skákum og endaði í 4.-5.sæti. Björgvin hefur verið iðinn við kolann að undanförnu og meðal annars hélt hann í víking síðastliðið sumar þar sem hann tefldi í Ungverjalandi í lokuðum IM flokki. Lausleg rannsókn þess sem hér lemur lyklaborð bendir til þess að Björgvin sé sá eini yfir sjötugu sem hefur hlotið nafnbótina Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur. Hinn efnilegi Björgvin er því til alls líklegur á næstu misserum. Vonandi verður þessi vaska framganga Björgvins eldri skákmönnum hvatning til þess að sækja innlend kappskákmót í ríkara mæli og miðla þannig af reynslu sinni, auk þess að efla mótahald í íslensku skáklífi. Það er mikilvægt uppbyggingu íslenskrar skákmenningar að ólíkar kynslóðir leiði saman hesta sína í öllum tegundum skákmóta.

received_10214114782693416

Björgvin Víglundsson er Skákmeistari TR 2017. Björgvin er jafnfram sá eini yfir sjötugu sem borið hefur þennan titil.

Óvæntustu úrslitin

Þegar Kristján Dagur Jónsson (1271) settist að tafli í 6.umferð til þess að stýra svörtu mönnunum gegn Herði Aroni Haukssyni (1859) þá áttu flestir von á sigri Harðar, enda munar heilum 588 skákstigum á þeim. Þeir sem þekkja til Kristjáns Dags áttu þó ekki endilega von á að sigur Harðar yrði öruggur því Kristján Dagur er reynslumikill og gefur ekkert eftir þó á móti blási. Kristján Dagur gerði sér hins vegar lítið fyrir og vann skákina! Hann sýndi þar hve mikilvægt það er að mæta vel á æfingar og hafa uppbyggilegt viðhorf til skákarinnar og ekki síður til sjálfs síns. Þetta er sannarlega eftirtektarverður árangur hjá Kristjáni Degi og það verður gaman að fylgjast með þessum brosmilda pilti í framtíðinni.

 

Hástökkvarinn

Joshua Davidsson (1414) sýndi lipra takta í mótinu. Hann gerði jafntefli við Hörð Aron Hauksson (1859) og Jón Úlfljótsson (1711) auk þess sem hann lagði Ingvar Egil Vignisson (1670). Joshua lauk keppni með 4 vinninga í sjö skákum, en hann gat ekki teflt síðustu tvær skákirnar sökum annarra skuldbindinga við taflborð. Fyrir þessa frábæru frammistöðu hækkar Joshua um 65 skákstig. Hann er því Hástökkvari Haustmótsins. Árni Ólafsson (1217) varð næstur með 56 stiga hækkun og þar á eftir kom Benedikt Þórisson (1065) með hækkun upp á 32 skákstig.

 

Hugsjónamaðurinn

Hugsjónamaður Haustmótsins er án efa Bolvíkingurinn geðþekki Magnús Pálmi Örnólfsson (2227). Er formaður Taflfélags Reykjavíkur setti sig í samband við hann fyrir mót til þess að benda honum á að hugsanlega væri þátttaka í Haustmótinu svarið við öllum hans fyrirferðamestu lífsgátum, þá féllst Magnús Pálmi á að taka þátt, en með því skilyrði að formaðurinn gæfi honum þau skákstig til baka sem hann kynni að tapa í mótinu. Á þetta féllst formaðurinn vitaskuld enda mikill fengur fyrir mótið að hafa Magnús Pálma á meðal þátttakenda. Hafi verið ryð í taflfingrum Bolvíkingsins til að byrja með þá var hann fljótur að hrista það af sér. Strax í 3.umferð hélt hann jöfnu gegn stórmeistaranum í endatafli þar sem hann þurfti að grafa djúpt í vestfirsku töfrakistuna til að forðast tap. Formaðurinn andaði léttar enda má lítið útaf bregða hjá honum ef hann á ekki að falla undir 2000 stiga múrinn. Magnús Pálmi sigldi í gegnum mótið með miklum glæsibrag og lauk tafli með 7 vinninga, silfurverðlaun um hálsinn og 21 skákstig í vasanum. Sannarlega vaskleg framganga og eftirtektarvert að fjórði stigahæsti þátttakandinn skuli hækka um ríflega tvo tugi stiga, verandi með K-stuðulinn 20. Á október-stigalista FIDE er Magnús Pálmi skráður með 2248 stig og er hann því einungis 52 stigum frá því að skipa sér á bekk með þeim skákmeisturum sem öðlast hafa nafnbótina FIDE-meistari.

Þó hér sé slegið á létta stigastrengi í tengslum við þátttöku Magnúsar Pálma í mótinu þá skal því haldið til haga að Bolvíkingurinn sefur rólegur á nóttunni þó skákstigin hans sveiflist til. Eins og hann sagði sjálfur: „Ég tefli bara fyrir fegurðina, gleðina og hamingjuna.“ Haldi einhver að hér sé gripið til frasa til að slá um sig þá er það ekki svo. Magnús Pálmi afþakkaði nefnilega verðlaunaféð sem hann vann sér inn og óskaði hann jafnframt eftir því að það rynni í barna- og unglingastarf Taflfélags Reykjavíkur. Sjálfur mætti hann vel á æfingar hjá TR á yngri árum eftir að hann fluttist til Reykjavíkur og hin síðari ár hefur hann fylgt börnunum sínum á skákæfingar félagsins. Stjórn Taflfélags Reykjavíkur færir Magnúsi Pálma innilegar þakkir fyrir hugulsemina. Hver króna þessa verðlaunafés verður nýtt til þess að börn og unglingar í Taflfélagi Reykjavíkur upplifi enn betur alla fegurðina, gleðina og hamingjuna sem fylgir því að stunda tafl í góðra vina hópi. Takk kærlega, Magnús Pálmi, fyrir þessa vítamínsprautu.

20170922_195211

Magnús Pálmi og Einar Hjalti áttust við í hörkuskák þar sem upp kom Evans-bragð og lyktaði skákinni með jafntefli.

Starfsfólkið

Tvíeykið óaðskiljanlega Ríkharður Sveinsson og Ólafur Ásgrímsson sáu um skákstjórn Haustmótsins líkt og undanfarin ár. Þeir félagarnir hafa marga fjöruna sopið í skákstjórn og hefur samstarf þeirra félaga varða í á fjórða áratug. Þar blandast saman röggsemi og nákvæmni í eina heild sem á sér enga líka.

Allar skákir Haustmótsins voru slegnar inn af Daða Ómarssyni á slíkum leifturhraða að eftir er tekið. Skákir hverrar umferðar voru ávallt innslegnar í síðasta lagi daginn eftir umferð og ef þær birtust síðar á vefnum þá var það fyrir handvömm og hægagang formannsins. Taflfélag Reykjavíkur telur þessa þjónustu vera mikilvæga fyrir íslenska skákhreyfingu, bæði fyrir skákmenn en ekki síður í sögulegu ljósi.

Kaffistofan okkar er ómetanlegur griðastaður skákmanna þar sem fylla má tóma maga, skvetta kaffi í bolla, tala digurbarkalega um glæsta sigra eða barma sér yfir glötuðum tækifærum. Þar stendur vaktina hin kærleiksríka Birna Halldórsdóttir og eru engin verk henni óviðkomandi, hvort sem þau tengjast uppáhellingum, samlokugrillun eða sálgæslu.

20170312_154120

Skákstjórarnir Ríkharður og Ólafur á góðri stundu fyrir fáeinum misserum.

Lokaorð

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra sem tóku þátt í Haustmótinu og um leið heillaóskum til allra verðlaunahafa. Vonandi sjáum við sem flesta aftur í einhverjum af fyrirhuguðum mótum vetrarins.

Lokastöðu, úrslit allra umferða auk allra skáka mótsins má nálgast á Chess-Results.