Unglingameistaramót TR fer fram á sunnudagUnglingameistaramót Taflfélags Reykjavíkur, sem jafnframt er Stúlknameistaramót T.R., fer fram sunnudaginn 14. nóvember í skákhöll T.R. að Faxafeni 12. Taflið hefst kl.13 og áætlað er að mótinu ljúki kl. 17.

Tefldar verða 7 umferðir eftir svissnesku kerfi með umhugsunartímanum 10 mínútur á skák, auk þess sem 5 sekúndur bætast við eftir hvern leik (10m+5s). Mótið verður reiknað til alþjóðlegra atskákstiga. Þátttaka er ókeypis.

Mótið er opið öllum börnum og unglingum, óháð taflfélagi eða búsetu, sem eru fædd árið 2006 eða síðar. Teflt verður í tveimur flokkum: opnum flokki og stúlknaflokki.

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í opna flokknum auk þess sem efsti TR-ingurinn hlýtur titilinn Unglingameistari T.R. 2021.  Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í stúlknaflokki auk þess sem efsti TR-ingurinn hlýtur titilinn Stúlknameistari T.R. 2021.

Til viðbótar verða veitt verðlaun fyrir efsta sætið í öllum árgöngum í báðum flokkum (opna flokknum og stúlknaflokknum), elsti árgangurinn er 2006 og yngsti árgangurinn er 2016 og yngri.

Núverandi Unglingameistari TR er Benedikt Þórisson. Núverandi Stúlknameistari TR er Batel Goitom Haile. Nánari upplýsingar um mótið 2019 má nálgast hér. Síðastliðið ár (2020) féll skákmótið niður vegna þáverandi reglna í Covid faraldrinum.

Skráning í mótið fer fram á hefðbundnu rafrænu skráningarformi.  Einnig má finna skráningarformið á skak.is.

Skráningarform 

Þegar skráðir keppendur 

Skákstjórar í mótinu verða þau Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir og Torfi Leósson.

Meðan á mótinu stendur bera skákstjórar grímu. Við hvetjum foreldra og aðra forráðamenn til að skilja við börn sín við innganginn í Faxafeni 12 og sækja þau þangað að móti loknu. Ef ástæða er til þess að fylgja börnum inn ber viðkomandi að bera grímu. Engin veitingasala verður meðan á mótinu stendur en keppendum er heimilt að koma með nesti.