Alþjóða geðheilbrigðismótið fer fram 12.októberAlþjóða geðheilbrigðismótið í skák verður haldið í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 fimmtudagskvöldið 12.október og hefst taflið klukkan 19.30.

Tefldar verða 9 umferðir með umhugsunartímanum 4+2. Mótið verður reiknað til hraðskákstiga. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin. Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir efstu konuna, efsta skákmanninn 60 ára og eldri, sem og efsta keppandann 16 ára eða yngri. Allir verðlaunahafar verða leystir út með verðlaunapeningi og bókaglaðningi. Sigurvegari mótsins fær jafnframt bikar að launum. Sigurvegari mótsins í fyrra varð Vignir Vatnar Stefánsson.

Mótið er haldið til að vekja athygli á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum, sem rímar vel við kjörorð skákhreyfingarinnar: Við erum ein fjölskylda. Að mótinu standa Vinaskákfélagið og Taflfélag Reykjavíkur en félögin hafa átt afar ánægjulegt og gott samstarf undanfarin ár.

Öllum skákáhugamönnum er velkomið að tefla með í þessu skemmtilega móti. Þátttökugjöld eru engin. Skráning fer fram í gegnum skráningarform sem finna má í gula kassanum á skak.is.

Photo-13-10-2016-20-25-01

Frá Alþjóða Geðheilbrigðismótinu 2016. Vigfús Ó. Vigfússon og Róbert Lagerman eigast við í að því er virðist einkar flókinni stöðu.