Úkraínskur sigur á Þriðjudagsmóti



Hinn geðþekki Úkraínumaður Andrey Prudnikov hafði sigur á fyrsta Þriðjudagsmóti júnímánaðar og sat í toppsætinu frá fyrstu umferð til hinnar síðustu. Í lokaumferðinni náði loks Sigurbjörn Hermannsson að hafa af honum ½ vinning en sigurinn á mótinu næsta öruggur, eftir sem áður. Í 2. – 4. sæti urðu síðan Kristófer Orri Guðmundsson, Roberto Eduardo Osario Ferrer og Sigurbjörn Hermannsson en sá síðastnefndi varð hins vegar stigahástökkvari kvöldsins; hækkaði um heil 76 stig, takk fyrir.

Verðlaun fyrir bestan árangur skv. frammistöðustigum fékk hins vegar Guðmundur Ingi Valgeirsson.

Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.

Þriðjudagsmótin verða í hverri viku í allt sumar og það næsta þar af leiðandi  þriðjudagskvöldið 13. júní og hefst að venju kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tefldar eru fimm umferðir, tímamörk eru 10 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma.