TR: Íslandsmót skákfélaga – fyrri hlutiFyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram í Rimaskóla helgina 8.-11.nóvember. Taflfélag Reykjavíkur sendi sex sveitir til leiks. Nokkra burðarása vantaði í A-sveit félagsins og því reyndist henni erfitt að halda í við sterkustu lið landsins. B-sveitin átti við ramman reip að draga eins og við var að búast enda næststigalægsta sveit efstu deildar, en sýndi engu að síður mikið baráttuþrek og oft og tíðum góða takta. Í 3.deild átti C-sveit TR erfitt uppdráttar þvert á spár og náði sér einungis í 3 stig af 8 mögulegum. Í 4.deild voru þrjár sveitir TR; D-sveit, E-sveit og F-sveit. TR-D er með 6 stig í toppbaráttunni og er líkleg til þess að tryggja sér sæti í 3.deild. E-sveitin er með 4 vinninga og gæti hæglega einnig skipað sér sess í efri hluta deildarinnar. F-sveitin sem er skipuð yngstu börnunum kom skemmtilega á óvart og vann tvær viðureignir af fjórum. Það voru því skin og skúrir hjá liðum Taflfélags Reykjavíkur í þessum fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga, eins og nær alltaf þegar margar sveitir eru sendar á vígvöllinn.

 

A-SVEIT

20181110_173152

Þó marga sterka skákmenn vantaði í A-sveitina var hún sannarlega vel skipuð. Hinn nýkrýndi stórmeistari, Bragi Þorfinnsson (2433), stóð vaktina á 1.borði að þessu sinni. Hann lenti í nokkrum hremmingum í upphafi móts er hann tapaði með svörtu gegn pólska stórmeistaranum Grzegorz Gajewski (2595) og varð að láta sér lynda jafntefli í 2.umferð gegn hinum eitilharða keppnismanni Þorvarði Fannari Ólafsson (2196). Bragi brást þó ekki við með því að kvarta yfir því að hafa haft svart í fyrstu tveimur umferðunum, og ekki reyndi hann að væla út frí hjá liðsstjóra í næstu umferð af því að hann var ekki að tefla vel. Þess í stað opnaði Bragi verkfærakistuna sína, herti nokkrar skrúfur í höfðinu og slípaði til taugabrautirnar. Hann mætti í næstu umferð í toppstandi, tefldi skínandi vel það sem eftir lifði helgar og vann síðustu þrjár skákir sínar.

Á 2.borði tefldi Guðmundur Kjartansson (2423) sem hefur líkt og Bragi tileinkað sér hugarfar sigurvegara. Gummi gefst aldrei upp þó á móti blási, og það blés sannarlega hraustlega á móti Gumma þessa helgina. Hann var grátlega nærri því að vinna pólska stórmeistarann Marcin Dziuba (2574) í 1.umferð en hann missti þá skák í jafntefli líkt og tvær aðrar. Gummi fékk 2,5 vinning í skákunum fimm en pilturinn á væna inneign hjá lukkudísunum sem hann mun án efa taka út í seinni hlutanum. Á 3.borði tefldi landsliðsþjálfari Úkraínu, Oleksandr Sulypa, og nældi hann í 4 vinninga. Það hefur verið afar ánægjulegt að fá Oleksandr til liðs við félagið því hann hefur gefið mikið af sér með fagmennsku sinni og þekkingu. Þetta er í annað sinn sem hann kemur til félagsins fyrir Íslandsmót skákfélaga og í bæði skiptin hefur hann sett upp þjálfun fyrir liðsmenn sem og að halda fyrirlestra og tefla í hraðskákmótum hjá félaginu.

Á 4.borði sat stigahæsti ungi skákmaður landsins, Hilmir Freyr Heimisson, (2364) og tefldi hann af miklu öryggi. Hann fékk 3 vinninga í skákunum fimm og tapaði ekki skák. Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með því risastökki sem Hilmir Freyr hefur tekið síðustu mánuði og einstaklega gaman að sjá piltinn uppskera vel eftir þá vinnu sem hann hefur lagt í skákina. Á 5.borði lék danski Fídemeistarinn Mikkel Manosri Jacobsen (2313) við hvurn sinn fingur og gaf andstæðingum sínum engin grið. Mikkel fékk 4,5 vinning í skákunum fimm og það var aðeins gamla brýnið Jón L. Árnason (2449) sem náði að klóra hálfan vinning af þeim danska.

Á 6.-8.borði tefldu Ingvar Þór Jóhannesson (2343), Omar Salama (2233), Benedikt Jónasson (2205), Bárður Örn Birkisson (2198) og Bergsteinn Einarsson (2221). Vinningarnir á neðstu borðunum urðu færri en vonast var eftir. Ingvar Þór tefldi þó af miklu öryggi og var aldrei í taphættu í sínum þremur skákum og Bárður Örn vann sínar tvær skákir af miklu harðfylgi eftir æsispennandi endatöfl og klukkubarning. Benedikt Jónasson lenti í miklu mótlæti og lék illa af sér í tveimur skákum, í annarri var hann með gjörunnið og í hinni með jafnteflisstöðu. Benedikt tefldi hins vegar frábærlega gegn alþjóðlega meistaranum Björgvin Jónssyni (2339) og vann hann glæsilega eftir hádramatískt endatafl þar sem meðal annars þurfti afskipti skákdómara. Omar Salama fékk 2 vinninga í skákunum fimm, gerði fjögur jafntefli og tapaði einni skák. Þá var einstaklega gaman að sjá fyrrum Ólympíumeistarann, Bergstein Einarsson (2221), aftur við taflborðið en hann tefldi eina skák og gerði jafntefli.

Að loknum fyrri hluta mótsins er A-sveitin í 4.sæti og hlýtur það að teljast ásættanlegt miðað við þau forföll sem voru þessa helgi. Það munar um minna þegar titilhafar tefla ekki með. Til gamans má geta þess að ef TR stillti upp liði með félagsmönnum sem ekki tefldu þessa helgi væri hægt að raða titilhöfum á öll átta borðin og hafa einn varamann; þrír stórmeistarar, þrír alþjóðlegir meistarar og þrír Fídemeistarar! Það munar um minna.

 

B-SVEIT

20181111_121347

Líkt og áður var B-sveit TR að stórum hluta skipuð okkar fremstu ungmennum sem náð hafa 2000 skákstigum. Á milli þeirra leyndust þó gamlir refir á borð við Þorvarð Fannar Ólafsson (2196), Árna Ármann Árnason (2108), Björgvin Víglundsson (2104), Guðna Stefán Pétursson (2042), Eirík Björnsson (1952) og Torfa Leósson (2150). Það er skemmst frá því að segja að B-sveitin halaði inn 11,5 vinning og er aðeins einum vinningi frá því að komast úr fallsæti. Sé litið til þess að sveitin er næststigalægst í efstu deild þá er árangurinn vel viðunandi enda náðu liðsmenn nokkrum frábærum úrslitum. Bárður Örn Birkisson (2198) gerði usla strax í 1.umferð er hann lagði einn fremsta skákkennara landsins, Björn Ívar Karlsson (2339) í afar spennandi skák. Benedikt Jónasson (2205) lagði Björgvin Jónsson (2339) og Þorvarður Fannar Ólafsson (2196) hélt jöfnu gegn stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni (2433), líkt og fram hefur komið. Þá gerði Gauti Páll Jónsson (2056) afar sterkt jafntefli gegn stórmeistaranum Hannesi Hlífari Stefánssyni (2498). Í sömu viðureign gerði Alexander Oliver Mai (1962) jafntefli með svörtu við landsliðskonuna og Íslandsmeistara kvenna Lenku Ptacnikovu (2203).

Guðni Stefán Pétursson (2042) kom sterkur inn í B-sveitina og nældi sér í 1,5 vinning í þremur skákum sem skilar honum 10 stiga hækkun. Gauti Páll gerði gott betur og hækkar um 14 stig. Tvíburarnir, Bárður Örn (2198) og Björn Hólm Birkissynir (2033), sýndu báðir mátt sinn og megin eftir nokkurt hlé frá taflmennsku. Björn Hólm hækkar um 27 stig og Bárður Örn hækkar um 35 stig. Þá skilaði gamla brýnið Eiríkur Björnsson (1952) tveimur jafnteflum í hús gegn stigahærri skákmönnum.

Það er ljóst að á brattan verður að sækja fyrir B-sveitina í seinni hlutanum. B-sveitin er hins vegar vel skipuð og verði mönnun A-sveitar góð í seinni hlutanum þá styrkist B-sveitin enn frekar. Það er því ærin ástæða fyrir TR-inga að vera bjartsýnir fyrir hönd B-sveitarinnar.

 

C-SVEIT

20181111_121240

TR-ingar bundu vonir við að C-sveitin yrði í toppbaráttu 3.deildar að loknum fyrri hlutanum. Þær vonir brustu strax eftir þrjár umferðir en þá hafði sveitin aðeins náð einu stigi. Öruggur sigur í 4.umferð lyfti sveitinni þó úr fallsæti. Þó stigin fjögur séu færri en reiknað var með þá leikur engin vafi á því að sveitin mun stökkva upp töfluna í seinni hlutanum. Jon Olav Fivelstad (1928) hélt uppi merkjum sveitarinnar með líflegri taflmennsku og baráttuþreki. Jon Olav vann allar þrjár skákir sínar. Guðni Stefán Pétursson (2042) og Eiríkur Björnsson (1952), sem tefldu jafnframt báðir fyrir B-sveitina, fengu 1,5 vinning í tveimur skákum. Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1746) fékk 2 vinninga í þeim þremur skákum sem hún tefldi fyrir C-sveitina, en hún tefldi auk þess eina skák fyrir B-sveitina. Jakob Alexander Petersen (1496) vann tvær skákir, eina fyrir C-sveitina og eina fyrir D-sveitina. Þá var einstaklega gaman að fá að njóta krafta Stefáns Briem (2083) sem enn eitt árið settist að tafli með okkur og tefldi með bros á vör eins og honum einum er lagið. Stefán sem varð áttræður fyrr á þessu ári stóð stöku sinnum upp á milli leikja til þess að líta á stöður barnabarna sinna, en þrjú þeirra stóðu í eldlínunni fyrir sitt félag annars staðar í salnum. Þar sannast hið fornkveðna að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.

 

D-SVEIT

20181111_121137

Markmið D-sveitar í þessu móti er einfalt; vinna sér sæti í 3.deild. Liðsmenn stóðu vaktina með sóma og höluðu inn 15 vinningum sem skilaði 6 stigum og 3.sæti. Nokkur af stigahæstu börnum félagsins tefldu í D-sveitinni og er gaman að sjá þau vinna sig hægt og bítandi upp stafrófið. Kristján Dagur Jónsson (1395) fékk 2 vinninga í 3 skákum og á meðal fórnarlamba hans var Alex Cambrey Orrason (1530). Árni Ólafsson (1382) stóð sig líka vel og fékk 3 vinninga í fjórum skákum. Benedikt Þórisson (1366) fékk þunga dagskrá og tefldi upp fyrir sig í þremur af fjórum skákum. Hann vann hins vegar örugglega skákina gegn andstæðingi sem var ögn stigalægri. Auk þeirra tefldu Adam Omarsson (1246) og Gestur Andri Brodman (1197) fyrir D-sveitina og stóðu sig vel. Þá fékk Þorsteinn Magnússon (1554) 2,5 vinning í þeim þremur skákum sem hann tefldi fyrir sveitina. Elsti TR-ingurinn sem tefldi á Íslandsmóti skákfélaga að þessu sinni fæddist á því herrans ári 1936 og heitir Guðmundur Aronsson (1573). Guðmundur sem er 82 ára gamall fékk 1,5 vinning í tveimur skákum. Þá vakti nokkra eftirtekt er alþingismaðurinn Brynjar Níelsson tefldi á 1.borði D-sveitar og vann sína skák í 6-0 sigri. Höfðu gárungarnir þá á orði að þarna hafi Brynjar fengið dýrmæta reynslu í að leiða D-listann til stórsigurs. Ætli Valhöll viti af þessu?

 

E-SVEIT & F-SVEIT

20181111_213600

Börnin í Taflfélagi Reykjavíkur skipuðu E-sveit og F-sveit félagsins. Flest tefldu þau við sér mun stigahærri andstæðinga og oftar en ekki voru andstæðingarnir einnig helmingi hærri, þrefalt þyngri og fimmfalt eldri. Börnin gáfu ekkert eftir í baráttunni á borðinu sem oft var bæði löng og ströng. Alltaf skilaði þrautseigjan og baráttan einhverju í hús; stundum heilum vinningi, stundum hálfum vinningi, en alltaf dýrmætri reynslu og nýrri þekkingu. Mörg börnin náðu frábærum úrslitum og má þar nefna sigur Iðunnar Helgadóttur (1150) á formanni Skákdeildar KR, Einari S. Einarssyni (1723), sigur Arnars Valssonar (1193) á Joshua Davíðssyni (1582), sigur Ásthildar Helgadóttur (0) á Sæmundi Bjarnasyni (1479) og jafntefli Soffíu Arndísar Berndsen (1043) gegn Arnfinni Bragasyni (1456). En þá er ekki öll sagan sögð því stundum töpuðust skákir eftir hetjulega framgöngu, skákir sem hæglega hefðu getað fallið börnunum í vil. Einar Tryggvi Petersen (0) tefldi tvær skákir við skákmenn sem voru 600-700 stigum hærri og vantaði afar lítið upp á til þess að Einar Tryggvi fengi eitthvað út úr þeim skákum, en hann varð að lokum að játa sig sigraðan eftir hetjulega baráttu. Liðsstjóranum var það sérstaklega minnisstætt að önnur þessara skáka var ein af þeim síðustu til að klárast í öllu mótinu. Öll stóðu börnin sig frábærlega og sýndu eftirtektarvert baráttuþrek og sigurvilja.

Liðsstjórar sveita Taflfélags Reykjavíkur voru Kjartan Maack (A og B), Eiríkur Björnsson (C og D) og Una Strand Viðarsdóttir (E og F). Félagsmenn Taflfélags Reykjavíkur fá miklar og góðar þakkir fyrir þátttökuna og við vonumst til þess að sjá enn fleiri með okkur í baráttunni í seinni hlutanum sem fram fer dagana 28.febrúar – 02.mars.