Toppbarátta titilhafa á Þriðjudagsmóti



Þátttaka var aðeins minni á Þriðjudagsmóti síðustu viku en undanfarið, enda mikið í gangi í skáklífinu um þessar mundir. Fjöldinn er þó ekki allt og að þessu sinni var efri helmingur mótsins öllu sterkari en stundum áður. Ásamt nokkrum sigurvegurum mótanna í vetur mættu þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson galvaskir eftir (að því er virtist) vænan skammt af skákrannsóknum fyrr um daginn. Enda brunuðu þeir að mestu viðstöðulítið í tvö efstu sætin í fyrstu fjórum umferðunum og telfdu svo dramatíska úrslitaskák í síðustu umferð. Þar fórnaði Vignir með hvítu manni fyrir þrjú peð og afar óræða stöðu, að hætti hússins. Hilmir Freyr náði þó að sjá við helstu hótunum og hafði sigur að lokum eftir æsilega baráttu.

Óvenju mikið var við að vera á milli umferða að þessu sinni. Síðasti hluti Reykjavíkurmóts grunnskólasveita (8. – 10. bekkur) fór fram í húsnæði SÍ á meðan á Þriðjudagsmótinu stóð (sem þýddi að Birnukaffi var opið framan af kvöldi) og svo var lífleg skákbókaskoðun og -sala í gangi líka, á vegum Davíðs Kjartanssonar og Skákbúðarinnar.

Þeir Hilmir Freyr og Kristján Theodór Sigurðsson uppskera því úttektarverðlaunin hjá Skákbúðinni að þessu sinni, sá síðarnefndi fyrir góða frammistöðu miðað við stig.

Öll úrslit og stöðu mótsins má annars nálgast hér á chess-results.

Næsta Þriðjudagsmót verður 12. apríl, klukkan 19:30 stundvíslega í félagsheimili TR, Faxafeni 12.