Taflfélag Reykjavíkur og Skákdeild Breiðabliks & Bolungarvíkur sameiginlegir Íslandsmeistarar unglingasveitaLið Íslandsmeistaranna tveggja eigast hér við.

Lið Íslandsmeistaranna tveggja eigast hér við.

Eitthvert hið dramatískasta Íslandsmót unglingasveita frá upphafi fór fram sunnudaginn 10. desember í Garðaskóla, Garðabæ, en mótshaldari var Taflfélag Garðabæjar. Umfjöllun um mótið birtist fyrst nú þar sem endurreikna þurfti lokastöðuna en A-lið Taflfélags Reykjavíkur (TR) og A-lið Breiðabliks & Bolungarvíkur (B&B) komu hnífjöfn í mark. Eftir allnokkur fundarhöld og góða og faglega umræðu var það sameiginleg niðurstaða allra hlutaðeigandi að Íslandsmeistaratitillinn yrði sameiginlegur þetta árið á milli tveggja góðra taflfélaga.

B-liðið að störfum.

B- og C-liðin að störfum.

Mótið fór vel fram og eftir umferðirnar sjö höfðu A-lið TR og A-lið B&B hvort um sig nælt í 23,5 vinning en lokaumferðin var æsispennandi. Að lokinni næstsíðustu umferð hafði A-lið TR vinningsforskot á A-lið B&B og hugsaði sér gott til glóðarinnar þar sem andstæðingar síðustu umferðar yrðu liðsfélagar þeirra í B-liði TR. Það reyndist þó allt annað en auðvelt fyrir A-liðið að leggja kollega sína enda tefldu liðsmenn B-liðsins af fullum krafti, eitthvað sem gerist ekki í hvert sinn sem slík staða kemur upp. Á þriðja borði var Benedikt Þórisson til að mynda kominn manni yfir snemma tafls gegn A-liðsmanninum Róberti Luu en sá síðarnefndi náði að snúa taflinu sér í vil eftir mikla baráttu og innbyrti að lokum sigurinn. Í einni skák hafði síðan B-liðsmaðurinn betur og því lauk viðureigninni með 3-1 sigri A-liðsins en á sama tíma lagði A-lið B&B A-lið Taflfélags Garðabæjar 4-0 og jafnaði þar með TR að vinningum. B-lið B&B var síðan nokkuð örugglega í þriðja sæti með 19,5 vinning.

Tvö af liðum TR mætast hér innbyrðis.

Tvö af liðum TR mætast hér innbyrðis.

Alls voru 22 lið skráð til leiks og líkt og undanfarin ár var Taflfélag Reykjavíkur með flest þeirra, eða átta lið, meira en þriðjung allra liðanna. Tvö af liðum félagsins voru eingöngu skipuð stúlkum en alls tefldi á fjórða tug barna fyrir TR. Sannarlega glæsilegur hópur iðkenda sem forsvarsmenn félagsins eru afar stoltir af og þakklátir fyrir þátttöku þeirra.

Fjöldamörg verðlaun féllu í skaut TR-inganna enda með flest liðin. Hér er önnur af stúlknasveitum félagsins á verðlaunapalli.

Fjöldamörg verðlaun féllu í skaut TR-inganna enda með flest liðin. Hér er annað af stúlknaliðum félagsins á verðlaunapalli.

Framganga allra TR-liðanna var öll hin prýðilegasta og stóðu börnin sig vel, hvort sem þau voru lengra á veg komin eða voru að stíga sín fyrstu spor í hinum flókna en fallega dansi skáklistarinnar. Við í TR viljum koma á framfæri þökkum til barnanna og forráðamanna þeirra fyrir að gefa sér tíma til að vera með okkur á þessum skemmtilega degi. Við höldum ótrauð áfram með starfið okkar eftir jólafrí og hlökkum til að hitta ykkur á nýju ári.

Glæsilega skipað H-lið er hér stolt á verðlaunapalli.

Glæsilega skipað H-lið er hér stolt á verðlaunapalli.

Skipan liðanna í ár

  • A-lið: Vignir Vatnar Stefánsson, Alexander Oliver Mai, Róbert Luu, Freyja Birkisdóttir
  • B-lið: Kristján Dagur Jónsson, Árni Ólafsson, Benedikt Þórisson, Alexander Már Bjarnþórsson
  • C-lið: Adam Omarsson, Alexander Björnsson, Ingvar Wu Skarphéðinsson, Tristan Theodór Thoroddsen, Gabríel Sær Bjarnþórsson
  • D-lið: Einar Tryggvi Petersen, Bjartur Þórisson, Jósef Omarsson, Freyr Grímsson
  • E-lið: Soffía Berndsen, Ásthildur Helgadóttir, Anna Katarina Thoroddsen, Elsa Kristín Arnaldardóttir, (Iðunn Helgadóttir sendi hlýja strauma frá útlöndum)
  • F-lið: Katrín María Jónsdóttir, Hildur Birna Hermannsdóttir, Elín Lára Jónsdóttir, Gerður Gígja Óttarsdóttir
  • G-lið: Sigurður Steinsson, Einar Helgi Dóruson, Stefán Geir Hermannsson, Daníel Davíðsson
  • H-lið: Emil Kári Jónsson, Rigon Kaleviqi, Róbert Kaleviqi, Jón Björn Margrétarson, Ísak Smári Svavarsson