Frá 1. til 8. október næstkomandi mun alþjóðlegt lokað 10 manna stórmót verða haldið í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur. Þá fer fram í fyrsta sinn Stórmeistaramót Taflfélags Reykjavíkur sem stefnt er að, að verði árviss viðburður í framtíðinni.
Mótið verður geysiöflugt og meðal þátttakenda eru þrír stórmeistarar og fimm alþjóðlegir meistarar. Aðstæður verða eins og best verður á kosið, bæði fyrir keppendur og áhorfendur. Allar skákir mótsins verða sýndar beint á netinu, en auk þess verður hægt að fylgjast með þeim á stóru tjaldi á keppnisstað. Reiknað er með að skákskýringar verði á mótsstað í hverri umferð, og svo síðast en ekki síst verða hinar rómuðu veitingar í boði sem ætíð fylgja mótum félagsins.
Mótið er nú fullbókað og eftirtaldir meistarar munu leiða saman hesta sína á reitunum 64:
1. Úkraínski ofurstórmeistarann Sergey Fedorchuk (2667)
Fedorchuck varð evrópumeistari unglinga undir 14 ára árið 1995, en meðal annara afreka hans má nefna efsta sætið á Cappelle la Grande Open árið 2008, ásamt TR-ingunum Vugar Gashimov (2737), Erwin L’Ami (2640), nýbökuðum skákmeistara Úkraínu, Yuriy Kryvoruchko (2678) og fleirum. Einnig sigraði hann á Dubai Open 2006 ásamt Armenunum Sargissian og Petrosian. Fedorchuk gekk nýverið í Taflfélag Reykjavíkur og verður spennandi að sjá hvort hann muni einnig tefla fyrir félagið í Íslandsmóti skákfélaga.
2. Úkraínski stórmeistarinn Mikhailo Oleksienko (2596)
Oleksienko sem er 27 ára, varð sextán ára alþjóðlegur meistari og þremur árum síðar stórmeistari. Fyrr í sumar sigraði hann Czech Open þar sem hann vann 6 skákir í röð eftir rólega byrjun. Nú í ágúst varð hann síðan í 1.-3. sæti á ZMDI Open í Dresden. Hann er því til alls líklegur á mótinu, og hefur verið á hraðri uppleið á stigalista Fide. Oleksienko er íslenskum skákmönnum að góðu kunnur, enda hefur hann verið fastamaður í liði Taflfélags Reykjavíkur á Íslandsmóti skákfélaga undanfarin ár.
3. Stórmeistarinn Henrik Danielsen (2500)
Henrik þarf vart að kynna, enda verið einn af okkar sterkustu og virkustu skákmönnum um árabil. Hann er fæddur í Nyköbing í Danmörku en hefur síðan 2006 teflt fyrir íslands hönd. Sex sinnum hefur hann teflt á Ólympíuskákmótinu, þar af þrisvar (2006, 2008 og 2012) fyrir Ísland. Henrik varð Íslandsmeistari í skák árið 2009, þar sem hann sigraði með nokkrum yfirburðum. Henrik Danielsen er liðsmaður Taflfélags Vestmannaeyja.
4. Færeyski alþjóðlegi meistarinn Helgi Dam Ziska (2468)
Þessi mikli Íslandsvinur og liðsmaður T.R. náði nýverið sínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli á opnu móti í Riga Lettlandi. Þar sýndi hann úr hverju hann er gerður, var með árangur upp á 2600 stig og mun hækka mikið á næsta stigalista Fide. Helgi er 23 ára, og varð alþjóðlegur meistari sautján ára. Á XXII Reykjavíkurskákmótinu 2006, sigraði Ziska (þá sextán ára) hollenska stórmeistarann Jan Timman í frægri skák. Stórmeistarinn þekkti gafst þá upp í tuttugusta leik með unna stöðu! Helgi mun örugglega sækja stíft annan áfanga sinn að stórmeistaratitli á mótinu, og verður spennandi að fylgjast með þessum geðþekka frænda vor.
5. Danski alþjóðlegi meistarinn Simon Bekker-Jensen (2414)
Simon hefur margoft teflt á Íslandi, bæði með Taflfélagi Reykjavíkur á Íslandsmóti Skákfélaga, og eins á Reykjavíkurskákmótinu. Hann varð norðurlandameistari drengja (U16), alþjóðlegur meistari 18 ára, og 9 ár í röð varð hann danskur meistari með liði sínu Helsinge Chess Club. Hann stefnir á sinn fyrsta áfanga að stórmeistaratitli á mótinu, og verður án efa erfiður viðureignar. Simon kemur inn í mótið í stað Jakob Vang Glud (2520) sem nýverið náði sínum öðrum áfanga að stórmeistartitli á Politiken Cup. Glud sá Stórmeistaramót Taflfélagsins sem kjörið tækifæri til að ná lokaáfanganum, en vegna anna við nám, þurfti hann að hætta við þátttöku.
6. Alþjóðlegi meistarinn Arnar Erwin Gunnarsson (2441)
Arnar er án efa einn hæfileikaríkasti skákmaður landsins. Snemma kom í ljós hversu mikið efni væri hér á ferð, enda varð pilturinn hvorki meira né minna en áttfaldur Norðurlandameistari í skák. Arnar hefur unnið sigur allavegana einu sinni á öllum stærstu mótum landsins, að undanskildum landsliðsflokknum. Fjórum sinnum hefur hann orðið atskákmeistari Íslands, og er einnig þekktur sem einn snjallasti hraðskákmaður landsins. Eflaust munu nú margir bíða spenntir eftir að sjá meistarann taka þátt í stórmóti í kappskák eftir þó nokkuð hlé. Arnar hefur allan sinn skákferil verið liðsmaður Taflfélags Reykjavíkur.
7. Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2434)
Guðmundur er án efa virkasti íslenski skákmeistarinn í dag. Hann hefur á árinu þegar teflt vel yfir 100 kappskákir og geri aðrir betur! Guðmundur varð Norðulandameistari U-20 og síðan alþjóðlegur meistari árið 2009. Fyrsti áfanginn að stórmeistaratitli kom sama ár á skoska meistaramótinu. Í fyrra tefldi Guðmundur mikið í suður Ameríku og varð m.a. í 1.-3. sæti á alþjóðlegu móti í Bogotá, Kólumbíu. Fyrr í sumar sigraði hann stigahæsta keppenda Stórmeistarmótsins, Sergey Fedorchuk í glæsilegri skák á Evrópumeistaramóti einstaklinga. Guðmundur er því í góðri þjálfun, getur unnið hvern sem er á góðum degi og stefnir án efa á annan stórmeistaraáfanga sinn. Guðmundur er uppalinn hjá Taflfélagi Reykjavíkur og hefur allan sinn feril teflt fyrir félagið.
8. Alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2493)
Bragi varð alþjóðlegur meistari árið 2003. Árið 2012 var hann á meðal sigurvegara á Opna skoska meistaramótinu með 7 v. af níu. Fyrsta áfanginn að stórmeistaratitli kom í hús í ár í bresku deildakeppninni. Þar tefldi hann fantavel og gerði m.a. jafntefli við stórmeistarann þekkta Nigel Short. Bragi hefur margsinnis teflt fyrir hönd Íslands og varð Ólympíumeistari með sveit Íslands, á Ólympíumóti unglingalandsliða í Las Palmas, Kanaríeyjum, árið 1995. Auk þess tefldi hann með landsliðinu á Ólympíumótinu 2004 og 2010 sem og í þremur Evrópukeppnum landsliða 2001, 2003 og 2010. Nokkuð ljóst má vera að Bragi er hvað líklegastur til afreka á mótinu, og gæti hæglega nælt sér í sinn annan áfanga að stórmeistaratitli. Bragi er liðsmaður Taflfélags Bolungarvíkur.
9. Fide meistarinn Sigurbjörn Björnsson (2395)
Sigurbjörn hefur einn áfanga til alþjóðlegs meistaratitils og hefur sannarlega styrk til að sækja annan á Stórmeistaramóti Taflfélags Reykjavíkur. Sigurbjörn hefur unnið fjölmörg mót innanlands og besti árangur hans á erlendri grundu er 4-13. sæti á Politiken Cup árið 2004 og 2.-12 sæti á Politiken Cup árið 2005, í bæði skiptin með sjö og hálfan vinning af tíu. Það verður gaman að fylgjast með kappanum, enda einn af þeim líklegri til að ná “normi” á mótinu. Sigurbjörn er liðsmaður Taflfélags Vestmannaeyja.
10. Þorvarður Fannar Ólafsson (2266)
Þorvarður er nýjasti liðsmaður Taflfélags Reykjavíkur og það er okkur mikil ánægja að hann skuli nú taka þátt í fyrsta Stórmeistaramóti félagsins. Fáir hafa verið duglegri að sækja mót félagsins en Þorvarður og hann hefur stórbætt sig undanfarið eitt og hálft ár. Hann sigraði á Skákþingi Reykjavíkur 2009 og hefur sigrað á Öðlingamóti T.R. undanfarin tvö ár. Þorvarður varð skákmeistari Hafnarfjarðar þrjú ár í röð 2003-2005. Það skildi enginn afskrifa “Varða” þótt hann sé stigalægstur keppenda. Stigin telja nefnilega ekkert á reitunum sextíu og fjórum og Þorvarður gæti hæglega sett strik í reikning gegn mun stigahærri keppendum á þessu móti.
Taflfélag Reykjavíkur vill með þessu móti gefa nokkrum af efnilegustu skákmönnum landsins kost á að tefla hér á landi á öflugu lokuðu móti sem sérsniðið er til áfangaveiða. Má segja að þar með hafi félagið svarað kalli íslenskra afreksskákmanna um slíkt mótahald, og það er von okkar í stjórn Taflfélagsins að þetta mót verði nú sem og næstu ár sú vítamínsprauta inn í íslenskt afreksskáklíf sem vantað hefur. Það er einnig von okkar í T.R. að það muni hvetja önnur félög til slíks mótahalds í framtíðinni, hvort sem er upp á eigin spýtur eða í samvinnu sín á milli.
En Taflfélagið mun einnig nýta komu erlendu meistaranna til að gefa þeim fjölmörgu börnum og unglingum sem sækja æfingar félagsins tækifæri á að kynnast þeim og tefla við þá. Boðið verður t.d. upp á fjöltefli við einn af meisturunum og fleira skemmtilegt verður á dagskránni.
Meira um fyrirkomulag mótsins, töfluröðun, tímasetningar umferða og fleira, mun verða tilkynnt fljótlega.