Lokamót Bikarsyrpu TR fer fram helgina 6.-8. aprílBikarsyrpa Taflfélags Reykjavíkur hefur fest sig í sessi undanfarin misseri og fer nú af stað fjórða árið í röð. Líkt og síðastliðinn vetur verða mót syrpunnar fimm talsins og verða tefldar sjö umferðir í hverju móti. Mótin fara fram í Skákhöll TR að Faxafeni 12.

Fyrir börn sem vilja taka framförum í skák þá er gott að byrja sem fyrst að tefla í kappskákmótum, en hingað til hefur þeim börnum sem vilja tefla á “alvöru mótum” einkum staðið til boða að taka þátt í opnum mótum. Þar er styrkleikamunur oft mikill og mótin taka langan tíma, auk þess sem mörgum börnum óar við tilhugsuninni um að tefla við fullorðna á sínum fyrstu kappskákmótum. Bikarsyrpan er svarið við því. Þessi mótaröð TR er ekki síður sniðin að þörfum þeirra barna sem dreymir um að næla sér í sín fyrstu skákstig.

Einungis börn á grunnskólaaldri (fædd árið 2002 eða síðar) sem ekki hafa náð 1600 alþjóðlegum skákstigum geta tekið þátt í mótum Bikarsyrpunnar. Þannig er styrkleikamunurinn minni en ella og börnin njóta þess betur að tefla. Tímamörkin eru jafnframt styttri, og henta börnum betur en langar 90 mínútna skákir sem tíðkast á hefðbundnum kappskákmótum fullorðinna. Mótin uppfylla öll skilyrði Alþjóða skáksambandsins FIDE og eru reiknuð til alþjóðlegra skákstiga.

Fimmta og síðasta mót Bikarsyrpunnar þennan veturinn hefst föstudaginn 6. apríl og stendur til sunnudagsins 8. apríl. Tefldar eru 7 umferðir eftir svissnesku kerfi. Tímamörk eru 30 mínútur + 30 sekúndur á hvern leik og geta skákirnar því varað í allt að tvær klukkustundir. Þó svo mikilvægt sé að börnin vandi sig og noti tímann vel, þá má gera ráð fyrir að margar skákir taki mun styttri tíma.

Dagskrá:

1. umferð: 6. apríl kl. 17.30 (fös)
2. umferð: 7. apríl  kl. 10.00 (lau)
3. umferð: 7. apríl  kl. 13.00 (lau)
4. umferð: 7. apríl  kl. 16.00 (lau)
5. umferð: 8. apríl  kl. 10.00 (sun)
6. umferð: 8. apríl  kl. 13.00 (sun)
7. umferð: 8. apríl  kl. 16.00 (sun)

Verðlaunaafhending fer fram strax að lokinni 7. umferð.

Tvær yfirsetur (bye) eru leyfðar í umferðum 1-5 og fæst 1/2 vinningur fyrir hvora yfirsetu. Tilkynna þarf skákstjóra um yfirsetu fyrir lok umferðarinnar á undan. Merkja skal við yfirsetu í 1. umferð á neðangreindu skráningarformi.

Sjálfkrafa tap dæmist á keppanda sem mætir á skákstað meira en 15 mínútum eftir að viðkomandi umferð hefst.

Þátttökugjald í mótið er 1.500kr. Börn sem eru félagar í TR greiða ekki þátttökugjald.

Sigurvegari mótsins hlýtur að launum bikar og þá hlýtur einnig efsta stúlkan í hverju móti bikar. Verðlaunapeningur eru veittur fyrir 2. sæti og 3. sæti. Sérstök verðlaun verða veitt næsta vor fyrir besta samanlagðan árangur, þar sem mest fjögur mót gilda; taflsett, skákklukka, 5.000kr bókainneign ásamt veglegum farandbikar. Þá verða veitt sérstök verðlaun fyrir besta samanlagðan árangur, þar sem mest fjögur mót gilda, fyrir börn sem eru félagar í TR, en það eru einkatímar hjá einhverjum af sterkustu skákmönnum félagsins; 1. sæti gefur 5 einkatíma, 2. sæti gefur 3 einkatíma og 3. sæti gefur 2 einkatíma.

Skráning fer fram í gegnum skráningarform hér að neðan. Hlökkum til að sjá ykkur!

Skráningarform

Skráðir keppendur

Skákstjórn: Þórir Benediktsson, s. 867 3109, thorirbe76@gmail.com