Ölduselsskóli með fullt hús!



Jólaskákmót TR og SFS hófst í gær, sunnudag, með keppni í tveimur riðlum yngri flokks. Mikil eftirvænting skein úr andlitum barnanna í skákheimili Taflfélags Reykjavíkur enda skipar þetta fjölmenna skákmót mikilvægan sess í skáklífi grunnskólabarna Reykjavíkur.

Jólamót TR og SFS

Norðlingaskóli og Háteigsskóli etja kappi.

Suður riðill hófst klukkan 10:30. Í opnum flokki bar A-sveit Ölduselsskóla ægishjálm yfir keppinauta sína, enda skáksveitin sú römm að bæði afli og reynslu. Sveitin vann alla sex andstæðinga sína en jafnframt gerðu piltarnir sér lítið fyrir og unnu allar 24 skákir sínar. Geri aðrir betur! Keppnin um 2.sætið og sæti í úrslitum mótsins var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í síðustu umferð. B-sveit Ölduselsskóla stóð best að vígi og hafði tveggja vinninga forskot á A-sveit Háteigsskóla, en sveitirnar mættust í umferðinni á undan þar sem niðurstaðan varð æsispennandi 2-2 jafntefli. Í lokaumferðinni vann A-sveit Háteigsskóla mikilvægan 4-0 sigur, á meðan B-sveit Ölduselsskóla atti kappi við B-sveit Háteigsskóla. Svo fór að piltarnir í B-sveit Háteigsskóla reyndust A-sveit sinni mikill styrkur því þeir náðu 2-2 jafntefli í þessari viðureign sem tryggði A-sveit Háteigsskóla 2.sætið. B-sveit Ölduselsskóla varð að gera sér 3.sætið að góðu þrátt fyrir frækna frammistöðu.

Í stúlknaflokki reyndist Melaskóli hlutskarpastur með 12,5 vinning. Í 2.sæti varð Breiðagerðisskóli með 10 vinninga. Í 3.sæti með 6 vinninga varð hin unga sveit Háteigsskóla.

Jólamót TR og SFS

Bronssveit Háteigsskóla var skipuð fjórum stúlkum úr 2.bekk.

Norður riðill hófst klukkan 14:00. Í opnum flokki mætti til leiks feykivel skipuð A-sveit Rimaskóla og vann sannfærandi sigur með 20 vinninga. Eina skáksveitin sem veitti þeim keppni var þeirra eigin B-sveit! B-sveit Rimaskóla hlaut 17 vinninga sem dugði þeim í 2.sæti riðilsins. B-sveitin gerði sér jafnframt lítið fyrir og náði 2-2 jafntefli gegn A-sveitinni. Það var svo A-sveit Ingunnarskóla sem nældi sér í 3.sætið og bronsverðlaun, en sveitin hlaut 15 vinninga.

Í stúlknaflokki var mikil spenna. Rimaskóli og Foldaskóli öttu kappi um efsta sætið og örlögin höguðu því þannig að sveitirnar mættust í lokaumferðinni. Baráttan um Grafarvoginn var því í algleymi í þessari lokaumferð þar sem Rimaskóli hafði fyrir umferðina eins vinnings forskot á Foldaskóla. Eftir mikinn barning, afleiki og mátfléttur hafði Foldaskóli 3-1 sigur í viðureigninni. Foldaskóli hlaut því 1.sætið en Rimaskóli varð í 2.sæti. Stúlknasveit Árbæjarskóla endaði í 3.sæti.

Í úrslitum yngri flokks, sem tefld verða í dag mánudag klukkan 17:00, mætast í opnum flokki Ölduselsskóli, Háteigsskóli og tvær sveitir Rimaskóla. Í stúlknaflokki mætast Foldaskóli, Rimaskóli, Melaskóli og Breiðagerðisskóli.

Keppni í eldri flokki fer fram samhliða úrslitum yngri flokks. Nánar verður fjallað um mótið í máli og myndum að því loknu.

Lokastaða riðla yngri flokks: Suður riðill & Norður riðill