Nikulás efstur á lokamóti Bikarsyrpunnar – Rosaleg baráttabikar

Slagsmál, bardagar og drápshótanir flugu út um allt í Skákhöllinni í dag en viðstaddir kipptu sér lítið upp við atganginn, jafnvel foreldrar og forráðamenn ungmennanna sem áttu í hlut gerðu ekkert til að stöðva brjálæðið.  Enda var hér um að ræða hina blóði drifnu bardaga taflmannanna þrjátíu-og-tveggja á hinum dýrmætu svart-hvítu reitum, sem telja alls sextíu-og-fjóra, þegar önnur og þriðja umferð lokamóts Bikarsyrpu Taflfélags Reykjavíkur fór fram.  Það er með ólíkindum að fylgjast með spennunni á skákborðunum á sama tíma og hinir ungu og efnilegu keppendur sitja pollrólegir í sætum sínum, hlaðnir stóískri ró sem sést síður á þeim fullorðnu sem fylgjast með.

bikars15_ (2)

Í fyrri umferð dagsins sigraði Alexander Már Bjarnþórsson Birki Ísak Jóhannsson á efsta borði með svörtu mönnunum, en Alexander náði öflugri sókn sem hann lauk með laglegri hróksfórn sem leiddi til óverjandi máts.  Alexander var þar með efstur með fullt hús ásamt þeim Nikulási Ými Valgeirssyni, Bjarka Ólafssyni og Hirti Kristjánssyni.

bikars15_ (5)

Í síðari umferð dagsins stýrði Alexander aftur svörtu mönnunum á efsta borði, nú gegn Nikulási.  Úr varð hin skemmtilegasta viðureign þar sem Alexander náði aftur öflugri sókn með því að fórna hluta af liðsafla sínum.  Svo virtist sem sókn Alexanders væri að skila árangri enda kóngur Nikulásar kominn á vondan stað í sínu lífi (þ.e. fulllangt út á vígvöllinn miðað við fjölda hermanna sem voru til staðar) en Nikulás varðist fimlega og tókst að losa kóng sinn úr klípunni.  Að lokum fór snaróður riddari hans af stað og með stuðningi drottningar sinnar leiddi hann menn Alexanders í gildru þar sem hinir svartklæddu hermenn urðu að fórna drottningu sinni ellegar verða skák-og-mát.

bikars15_ (1)

Þess má til gamans geta að orðasambandið skák-og-mát eða checkmate er almennt talið eiga rætur sínar að rekja til persnesku, eða shāh māt, sem myndi útleggjast á íslensku sem kóngnum þínum er ekki viðbjargandi eða kóngurinn þinn er dauður.

bikars15_ (3)

En aftur að því sem skiptir meira máli, úrslitunum úr mótinu.  Að loknum þremur umferðum af fimm leiðir Nikulás með fullt hús vinninga en í fyrri umferð dagsins lagði hann Kristján Dag Jónsson.  Hjörtur Kristjánsson, Bjarki Ólafsson og Mykhaylo Kravchuk koma næstir með 2,5 vinning en Hjörtur og Bjarki gerðu innbyrðis jafntefli í þriðju umferð á meðan Mykhaylo lagði liðsfélaga sinn, Guðmund Agnar Bragason.

bikars15_ (4)

Á morgun, sunnudag, fara fram tvær síðustu umferðirnar og þá mætast í fjórðu umferð á efstu borðum Bjarki og Nikulás, sem og Hjörtur og Mykhaylo.  Fjórða umferð hefst kl. 10.30 en sú fimmta og síðasta kl. 14.00.  Það er ljóst að úrslit munu ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni og því útlit fyrir rafmagnað andrúmsloft í Skákhöllinni á morgun.  Foreldrar og forráðamenn sem og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta og upplifa stemninguna.

bikars15_ (6)