U-2000 mótið hafiðU2000_2015_R1-15

Stephan Briem stóð sig vel gegn Haraldi Baldurssyni.

U-2000 mót Taflfélags Reykjavíkur hófst í gær en það er nú endurvakið eftir tíu ára hlé.  Mótið er opið öllum þeim sem hafa minna en 2000 Elo-stig og eru þátttakendur að mestu af yngri kynslóðinni en ásamt þeim taka þátt reyndir meistarar sem eru hvergi smeykir við að leggja stigin sín að veði gegn mörgum af efnilegustu skákmönnum landsins. Stigahæstur keppenda er Haraldur Baldursson (1969) en næstir koma Björn Hólm Birkisson (1852), Sigurjón Haraldsson (1799) og Gauti Páll Jónsson (1782).

U2000_2015_R1-16

Haraldur Baldursson er stigahæstur keppenda.

Viðureignir fyrstu umferðar voru um margt athyglisverðar og óvænt úrslit litu strax dagsins ljós, þ.e. ef horft er til stigamunar keppenda. Á efsta borði stýrði hinn ungi og efnilegi piltur úr Breiðablik, Stephan Briem (1396), hvítu mönnunum gegn Haraldi í hörkuskák. Stephan hafði í fullu tré lengi vel gegn stigahæsta keppandanum en að lokum sagði reynslan til sín og Haraldur hafði sigur í lengstu skák umferðarinnar.

U2000_2015_R1-17

Jason Andri Gíslason barðist af hörku gegn Ingvari Agli Vignissyni.

Á þriðja borði urðu líklega óvæntustu úrslit umferðarinnar þegar Jón Þór Lemery (1342) gerði jafntefli við Gauta Pál, en Gauti fór nýverið hamförum á Haustmóti TR þar sem hann vann C-flokkinn með fullu húsi vinninga. Í umræddri skák stýrði Jón Þór hvítu mönnunum og lenti í þekktri Kan-gildru Sikileyjarvarnar þar sem Gauti Páll vann mann snemma skákar fyrir tvö peð. Eitthvað fataðist svörtum þó flugið í framhaldinu sem leiddi til ágætra færa hvíts sem vann manninn til baka og stóð til vinnings að lokum. Jón Þór sá þó enga örugga vinningsleið og bauð jafntefli sem Gauti þáði með þökkum. Góð barátta hjá Jóni sem hefur verið í framför að undanförnu.

U2000_2015_R1-21

Halldór Atli vann nafna sinn með laglegri fléttu.

Af öðrum úrslitum má nefna að jafntefli gerðu þeir Arnaldur Bjarnason, sem er stigalaus, og Aron Þór Mai (1535) sem hefur farið mikinn undanfarið. Þá lagði Halldór Atli Kristjánsson (1413) nafna sinn Halldór Kristjánsson, sem einnig er stigalaus, með laglegri mátfléttu í lokin, en Halldór Atli hefur verið á góðu flugi eins og svo margir af okkar ungu skákmönnum.

U2000_2015_R1-20

Arnaldur Bjarnason gerði jafntefli við hinn efnilega Aron Þór Mai.

Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30. Þá mætast m.a. Haraldur og Ingvar Egill Vignisson (1549), Jóhann Arnar Finnsson (1580) og Sigurjón, sem og Eggert Ólafsson og Tjörvi.

Áhorfendur velkomnir – Alltaf heitt á könnunni.