Mykhaylo sigurvegari lokamóts Bikarsyrpunnar



bikar15_r5 (4)

Í dag fóru fram tvær síðustu umferðirnar í fjórða og síðasta móti Bikarsyrpu TR þetta tímabilið og var loftið sannarlega lævi blandið í Skákhöll félagsins að Faxafeni.  Upp úr klukkan tíu í morgun tóku keppendur að tínast á skákstað, enn á ný tilbúnir að murka líftóruna úr andstæðingum sínum, alltsvo á hinum mögnuðu 64-reita borðum.

bikar15_r5 (6)

Fyrir fjórðu umferð leiddi Nikulás Ýmir Valgeirsson með fullt hús vinninga en Hjörtur Kristjánsson, Bjarki Ólafsson og Mykhaylo Kravchuk komu í humátt með 2,5 vinning.  Þeir fjórir mættust í innbyrðis viðureignum og ljóst var að hart yrði barist til að vera í sem bestri stöðu fyrir loka-orrustuna síðar um daginn.  Svo fór að Bjarki vann Nikulás nokkuð örugglega með hvítu mönnunum, stillti mönnum sínum vel upp á meðan svörtu fótgönguliðarnir voru fullrólegir.  Endaði sú barátta með mikilli beyglu svarts þar sem drottningin var á óæskilegu flandri í kringum menn sína, sem þvældust fyrir hennar hátign, og hlaut fyrir vikið skjótan endi á sínu lífi er Bjarki slátraði henni með laglegri fráskák.

bikar15_r5 (7)

Með sigrinum skaust Bjarki frammúr Nikulási en við hlið þeirra, á öðru borði, stýrði Hjörtur hinum ljósu taflmönnum gegn eilítið dekkri hermönnum Mykhaylos.  Hart var barist en að lokum sættust þeir félagar á skiptan hlut í stöðu sem virtist gefa ágætis tilefni til þess enda höfðu báðir einn riddara og jafnmörg peð hvor.

bikar15_r5 (2)

Með fyrrgreindu jafntefli var Bjarki kominn í kjörstöðu fyrir lokaumferðina, einn á hinum kalda toppi með 3,5 vinning, en heil strolla sex keppenda beið rétt fyrir neðan tindinn eftir tækifæri til að hrifsa hásætið af honum, enda aðeins hálfum vinningi á eftir.

bikar15_r5 (10)

Þegar keppendur settust gegnt hver öðrum í fimmtu og síðustu umferð mátti nánast skera loftið, svo mikil var spennan.  Ef rýnt var vel í hinar sex gerðir vígamannanna á hinum ferköntuðu og köflóttu reitum var líkt og blóð drypi af tönnum þeirra og vopn þeirra væru þyngri og öflugri en gengur og gerist.

bikar15_r5 (1)

Á efsta borði stýrði Mykhaylo hvítu mönnunum gegn svörtum bandítum Bjarka og úr varð löng og ströng barátta þar sem stöðuleg togstreita einkenndi fyrri hluta rimmunnar.  Jafnt og þétt saumaði Mykhaylo þó að kóngi Bjarka og var skjól hins dökkklædda kóngs orðið allgisið sem leiddi til þyngri og þyngri varnar hinna vinnandi hermanna.  Bjarki barðist vel, reyndi að kreista fram gagnsókn en varð að lokum að játa sig sigraðan eftir hetjulega baráttu.

bikar15_r5 (3)

Með sigrinum ruddi Mykhaylo Bjarka úr toppsætinu en bíða þurfti eftir lokum annarra viðureigna til að fá á hreint hver stæði uppi sem sigurvegari þar sem mjótt var á munum.  Á þriðja borði höfðu Kristján Dagur Jónsson og Alexander Már Bjarnþórsson gert jafntefli eftir að sá fyrrnefndi hafði haft vænlega stöðu í hróksendatafli.  Því var ljóst að hvorugur þeirra næði Mykhaylo að vinningum.

bikar15_r5 (8)

Augu viðstaddra beindust því að öðru borði þar sem fram fór verulega svakaleg barátta á milli Nikulásar og Hjartar þar sem sá fyrrnefndi fékk að hefja skákina, enda stýrandi hvítu mönnunum.  Eftir að mönnum hafði verið stillt upp blés Nikulás í herlúðra, öllu heldur stríðslúðra, því hann fórnaði manni til að komast betur að kóngi Hjartar.  Úr varð að sóknin var ekki nægilega öflug og virtist Hjörtur vera með vörnina á hreinu allan tímann, en smámsaman skapaðist algjör glundroði á vígvellinum þar sem Hjörtur var með margskonar máthótanir á hendur hvíta kónginum.  Nikulás stríddi kóngi svarts þó lengi vel með hrókum sínum tveimur ásamt biskupi enda staðan á borðinu opin í alla enda.  Að lokum þvarr þó skákir hvíts og eftirleikurinn var auðveldur fyrir svartan.

bikar15_r5 (9)

Hjörtur jafnaði þarna Mykhaylo að vinningum en eftir stigaútreikning var sá síðarnefndi eilítið ofar og vann því sitt annað mót í Bikarsyrpunni – glæsilegt hjá Mykhaylo.  Árangur Hjartar er eftirtektarverður þar sem hann hefur ekki sést á mótum áður og hóf taflmennsku fyrir skömmu síðan.  Þrír keppendur komu næstir í mark með 3,5 vinning; Alexander Már, Bjarki og Kristján Dagur en Alexander hlaut þriðja sætið eftir þrefaldan stigaútreikning. Umræddur Mykhaylo hlaut einnig vegleg verðlaun fyrir bestan samanlagðan árangur í mótunum fjórum en fyrir hann fékk hann fimm fría einkatíma hjá einum af alþjóðlegu meisturunum í TR auk glæsilegs farandbikars.  Aron Þór Mai og Guðmundur Agnar Bragason urðu í öðru og þriðja sæti yfir samanlagðan árangur og hlutu sömuleiðis einkatíma að launum.

bikar15_r5 (11)

Vel heppnaðri eldskírn Bikarsyrpunnar er lokið og viljum við í Taflfélagi Reykjavíkur koma á framfæri þökkum til allra glæsilegu keppendanna ásamt foreldrum og forráðamönnum fyrir að búa til með okkur skemmtilega mótasyrpu sem verður án nokkurs vafa endurtekin á næsta tímabili.

bikar15_r5 (5)