Mótaáætlun TR starfsárið 2017-2018Mótaáætlun Taflfélags Reykjavíkur fyrir starfsárið 2017-2018 liggur nú fyrir og geta áhugasamir nálgast hana á heimasíðu félagsins.

Það reyndist þrautin þyngri að koma öllum taflmótum TR fyrir á starfsárinu sem senn hefst, enda umsvif félagsins mikil. Þá er óvenju mikið annríki á haustmánuðum hjá íslenskum skákmönnum, bæði innanlands sem utan.

TR stendur fyrir 30 formlegum skákmótum næsta vetur og eru þá ótalin öll æfingamótin sem haldin eru reglulega sem liður í skákæfingum félagsins. Starfsárið hefst með Borgarskákmótinu mánudaginn 14.ágúst og sunnudaginn þar á eftir, þann 20.ágúst, verður sest að tafli í Árbæjarsafninu. Í kjölfarið rekur hver viðburðurinn annan fram á vor.

Öll helstu skákmót TR eru á sínum stað í dagskránni. Haustmótið hefst 6.september og Skákþing Reykjavíkur hefst 14.janúar. Fyrsta Bikarsyrpan er óvenju snemma að þessu sinni eða 25.-27.ágúst. U2000 mótið hefst 11.október og Öðlingamótið hefst 21.mars. Þá verður nýjasta mótaafurð félagsins, Meistaramót Truxva, á sínum stað á annan í hvítasunnu.

Eitt er víst, skákáhugamenn ættu ekki að vera í vandræðum með að finna skákmót við sitt hæfi á næsta starfsári.

Mótaáætlun TR 2017-2018

Mótadagatal TR 2017-2018