Mikil stemning á Jólamóti SFS og TR



Mikið var um dýrðir í skákheimili Taflfélags Reykjavíkur dagana 29.-30.nóvember síðastliðinn þegar hið geysivinsæla Jólamót SFS og TR var haldið. Þetta árlega samstarfsverkefni Skóla- og Frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur heppnaðist með miklum ágætum og voru fjölmörg skólabörn saman komin þessa tvo snjóþungu daga til þess að njóta ánægjulegra stunda við skákborðin.

Líkt og undanfarin ár þá var mótinu skipt í yngri flokk (1.-7.bekkur) og eldri flokk (8.-10.bekkur). Yngri flokknum var jafnframt skipt í hefðbundna tvo riðla (suður og norður) til að mæta mikilli eftirspurn yngri barnanna. Þá voru veitt sérstök stúlknaverðlaun líkt og undanfarin ár.

Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs, Þórgnýr Thoroddsen, setti mótið og lék fyrsta leik mótsins.

Formaður ÍTR, Þórgnýr Thoroddsen, leikur fyrsta keik mótsins.

Formaður ÍTR, Þórgnýr Thoroddsen, leikur fyrsta leik mótsins.

Yngri flokkur

Í opnum flokki Suður riðils bar A-sveit Ölduselsskóla ægishjálm yfir keppinauta sína, enda skáksveitin sú römm að bæði afli og reynslu. Sveitin vann alla sex andstæðinga sína en jafnframt gerðu piltarnir sér lítið fyrir og unnu allar 24 skákir sínar. Geri aðrir betur! Keppnin um 2.sæti riðilsins og sæti í úrslitum mótsins var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í síðustu umferð. B-sveit Ölduselsskóla stóð best að vígi og hafði tveggja vinninga forskot á A-sveit Háteigsskóla, en sveitirnar mættust í umferðinni á undan þar sem niðurstaðan varð æsispennandi 2-2 jafntefli. Í lokaumferðinni vann A-sveit Háteigsskóla mikilvægan 4-0 sigur, á meðan B-sveit Ölduselsskóla atti kappi við B-sveit Háteigsskóla. Svo fór að piltarnir í B-sveit Háteigsskóla reyndust A-sveit sinni mikill styrkur því þeir náðu 2-2 jafntefli í þessari viðureign sem tryggði A-sveit Háteigsskóla 2.sætið. B-sveit Ölduselsskóla varð að gera sér 3.sætið að góðu þrátt fyrir frækna frammistöðu.

Einbeiting skein úr hverju andliti.

Einbeiting skein úr hverju andliti.

Í stúlknaflokki Suður riðils reyndist Melaskóli hlutskarpastur með 12,5 vinning. Í 2.sæti varð Breiðagerðisskóli með 10 vinninga. Í 3.sæti með 6 vinninga varð hin unga sveit Háteigsskóla.

Stúlknasveit Háteigsskóla var yngsta sveit mótsins. Allar eru þær í 2.bekk.

Stúlknasveit Háteigsskóla var yngsta sveit mótsins. Allar eru þær í 2.bekk.

Í opnum flokki Norður riðils mætti til leiks feykivel skipuð A-sveit Rimaskóla og vann hún sannfærandi sigur með 20 vinninga. Eina skáksveitin sem veitti þeim keppni var þeirra eigin B-sveit, og er það til marks um þá miklu breidd sem Rimaskóli hefur yfir að ráða. B-sveit Rimaskóla hlaut 17 vinninga sem dugði þeim í 2.sæti riðilsins. B-sveitin gerði sér jafnframt lítið fyrir og náði 2-2 jafntefli gegn A-sveitinni. Það var svo A-sveit Ingunnarskóla sem nældi sér í 3.sætið og bronsverðlaun, en sveitin hlaut 15 vinninga.

Hinn efnilegi og reynslumikli Óskar Víkingur Davíðsson tefldi á 1.borði fyrir Öldutúnsskóla.

Hinn efnilegi og reynslumikli Óskar Víkingur Davíðsson tefldi á 1.borði fyrir Ölduselsskóla.

Í stúlknaflokki Norður riðils var mikil spenna. Rimaskóli og Foldaskóli öttu kappi um efsta sætið og örlögin höguðu því þannig að sveitirnar mættust í lokaumferðinni. Baráttan um Grafarvoginn var því í algleymi í þessari lokaumferð þar sem Rimaskóli hafði fyrir umferðina eins vinnings forskot á Foldaskóla. Eftir mikinn barning, afleiki og mátfléttur hafði Foldaskóli 3-1 sigur í viðureigninni. Foldaskóli hlaut því 1.sætið en Rimaskóli varð í 2.sæti. Stúlknasveit Árbæjarskóla hafnaði í 3.sæti.

Í úrslitum opna flokksins mættust Ölduselsskóli, Háteigsskóli og tvær sveitir Rimaskóla. Kom fáum á óvart er Ölduselsskóli lagði alla andstæðinga sína að velli og hlaut alls 10,5 vinning í 12 skákum. A-sveit Rimaskóla hlaut silfurverðlaun eftir harða baráttu við B-sveit sína sem nældi sér í bronsverðlaun.

Sigurvegarar opna flokksins, Ölduselsskóli.

Sigurvegarar opna flokksins, Ölduselsskóli.

Í úrslitum stúlknaflokks háðu Foldaskóli og Melaskóli harða baráttu um gullverðlaunin. Er upp var staðið munaði aðeins einum vinningi á skólunum tveimur. Foldaskóli hafði betur með 10 vinninga en Melaskóli hlaut 9 vinninga. Munaði þar mestu um að Foldaskóli lagði Melaskóla að velli 3-1. Rimaskóli tryggði sér bronsverðlaunin með 4,5 vinning.

Sigursveit stúlknaflokks, Foldaskóli.

Sigursveit stúlknaflokks, Foldaskóli.

Eldri flokkur

Í opnum flokki eldri flokks mættu til leiks, gráir fyrir járnum, sigurvegarar síðasta árs, A-sveit Laugalækjarskóla. Ef einhverjir keppinautar þeirra ólu von í brjósti um að geta skákað Laugalækjarskólapiltum þá var sú von kæfð í fæðingu. A-sveit Laugalækjarskóla gerði sér lítið fyrir og vann allar skákir sínar tuttugu og fjórar að tölu. Hin sterka A-sveit Rimaskóla stóð sig einnig með miklum sóma þó svo Laugalækjarskóli hafi reynst of stór biti. Þó Rimaskóli hafi tapað 4-0 fyrir sigursveit Laugalækjarskóla, þá gerði sveitin sér lítið fyrir og vann allar hinar tuttugu skákir sínar. Rimaskóli hafnaði því í 2.sæti mótsins. Mikil spenna hljóp í keppnina um bronsverðlaunin og réðust úrslitin í síðustu umferðinni. Langholtsskóli kom í mark sjónarmun á undan Fellaskóla, og tryggði sér bronsverðlaun með 14 vinninga.

Laugalækjarskóli vann með fullu húsi.

Laugalækjarskóli vann með fullu húsi.

Í stúlknaflokki eldri flokks reyndist Rimaskóli hlutskarpastur með 12 vinninga. Laugalækjarskóli hlaut 8 vinninga í 2.sæti og Breiðholtsskóli varð í 3.sæti með 5 vinninga.

Burðarásar sigursveitar Rimaskóla hampa bikarnum.

Burðarásar sigursveitar Rimaskóla hampa bikarnum.

 

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að skapa hið notalega andrúmsloft sem einkenndi skákheimili félagsins meðan á móti stóð. Sérstakar þakkir fá börnin sem með sinni einlægu blöndu af keppnisskapi og gleði gera þetta árlega jólamót að einum af hápunktum skólaskákar í Reykjavík ár hvert. Taflfélag Reykjavíkur þakkar jafnframt Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar fyrir ánægjulegt samstarf.

Lokastaða yngri flokks: Suður riðill * Norður riðill * Úrslit opins flokks * Úrslit stúlknaflokks

Lokastaða eldri flokks: Opinn flokkur og stúlknaflokkur