Æsispennandi toppbarátta í ÖðlingamótinuEnn er staðan jöfn og spennandi á Öðlingamóti TR. Síðastliðinn miðvikudag slíðruðu Haraldur Haraldsson og Þorvarður Ólafsson sverðin og eru því hvor um sig með fjóra vinninga af fimm mögulegum. Á öðru borði vann hins vegar hinn eitilharði Haraldur Baldursson sóknarmanninn Jóhann Ingvason með svörtu. Þannig kom hann sér í hóp með efstu mönnum. Önnur úrslit voru nokkurn veginn eins og búast mátti við en þó má nefna að Sigurjón Þór Friðþjófsson (1699) vann Jóhann Ragnarsson (1984). Sigurjón er í hópi fjögurra skákmanna með þrjá og hálfan vinning.

Í sjöttu og næstsíðustu umferð verður Hallaslagur á fyrsta borði en þar mætast þeir kappar Haraldur Baldursson og Haraldur Haraldsson. Á öðru borði teflir Þorvarður gegn Lenku Ptacnikovu. Núna er allt opið og sjö skákmenn eiga möguleika á sigri þegar tvær umferðir eru eftir. Þrýst verður á starthnappa skákklukknanna miðvikudaginn 20. mars klukkan 19:30 og skákáhugamönnum er boðið að líta við og fylgjast með spennunni á borðunum ellefu.

Chess-Results