Á annan tug TR-inga keppti í Íslandsmótinu



Það var fríður hópur liðsmanna Taflfélags Reykjavíkur sem tók þátt í Íslandsmótinu í skák sem fór fram á 20. hæð Turnsins í Borgartúni dagana 31. maí – 8. júní.  Góð stemning var á skákstað og voru aðstæður hinar skemmtilegustu og útsýni yfir höfuðborgina stórbrotið.  Hvort sem hinn nýi keppnisstaður eða eitthvað annað hefur sett strik í reikninginn skal ósagt látið en líklega er langt síðan svo mikill fjöldi óvæntra úrslita hefur litið dagsins ljós í einu móti.  Fyrirkomulag mótsins bauð svo sannarlega upp á það en í tilefni af 100 ára afmæli Íslandsmótsins var ákveðið hafa mótið opið en landsliðsflokkur hefur verið lokaður um árabil.  Skáksamband Íslands á hrós skilið fyrir þessa framkvæmd sem heppnaðist með eindæmum vel.

 

Sem fyrr létu TR-ingar sig ekki vanta í mótið og það er sérstaklega gaman að geta þess að sjö börn úr afrekshópi félagsins voru meðal keppenda en þau voru Bárður Örn Birkisson, Björn Hólm Birkisson, Gauti Páll Jónsson, Guðmundur Agnar Bragason, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, Vignir Vatnar Stefánsson og Þorsteinn Magnússon.  Auk þessara glæsilegu fulltrúa yngstu kynslóðarinnar tóku Björgvin Kristbergsson, alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson, Pétur Jóhannesson og Magnús Kristinsson þátt í mótinu.

 

Tefldar voru tíu umferðir og hlaut alþjóðlegi meistarinn Guðmundur 6 vinninga ásamt Vigni Vatnari sem að auki vann verðlaun fyrir bestan árangur miðað við eigin skákstig í flokki keppenda undir 2000 skákstigum.  Vignir, sem í upphafi móts hafði 1678 stig, skilaði árangri sem jafngildir 1965 stigum en þess má geta að Vignir hækkar um 47 stig fyrir frammistöðuna í mótinu.  Gauti Páll, Bárður Örn, Veronika og Magnús fengu 4,5 vinning, Björn Hólm sem var með næstbestan stigaárangur í sínu flokki á eftir Vigni fékk 4 vinninga, Þorsteinn 3,5, Guðmundur Agnar 3, og þeir félagar Björgvin og Pétur 2,5 hvor.

 

Á góðri heimasíðu mótsins má finna lokastöðu ásamt öllum úrslitum auk stigabreytinga keppenda og annarar tölfræði.  Einnig eru allar skákir mótsins aðgengilegar og þá er rétt að benda á skak.is þar sem ítarlega er fjallað um mótið ásamt því sem nálgast má fjöldann allan af myndum.