Ísak Orri efstur á fyrsta móti Bikarsyrpunnar20160910_160419

Ísak Orri og Batel Goitom leiða hér saman hesta sína í fjórðu umferð.

Fyrsta mótið af fimm í Bikarsyrpu TR er í fullum gangi og lýkur með þremur umferðum í dag. Hart hefur verið barist í skemmtilegum og spennandi viðureignum en í fjórðu umferð var lengsta orrustan á milli Ísaks Orra Karlssonar (1148) og Batel Goitom. Batel stýrði svörtu mönnunum og fékk afbragðs stöðu eftir byrjunina og var að auki tveimur peðum yfir. Ísak varðist þó vel og þegar leið á var staðan orðin opin og tvísýn þar sem kauði náði að snúa á Batel og hala inn sigur eftir langa og stranga baráttu.

Eitthvað hefur verið um óvænt úrslit og má þar til dæmis nefna sigur fyrrnefnds Ísaks á Daníel Erni Njarðarsyni (1388). Þá lagði Benedikt Þórisson (1169) Joshua Davíðsson (1411) og slíkt hið sama gerði Elísabet Xi Sveinbjörnsdóttir við Árna Ólafsson (1156).

Fyrir lokadaginn er Ísak Orri efstur með fullt hús vinninga en Batel og Joshua koma næst með 3 vinninga.

Fimmta umferð hefst nú á eftir klukkan 10:00 og þá mætast á efstu borðum Joshua og Ísak orri, og Kristján Dagur Jónsson (1251) og Batel.