Háspenna á Skákþinginu – Fjórir efstir fyrir lokaumferðinaÚrslitaskák? Alþjóðlegu meistararnir Björn Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson mætast í lokaumferðinni.

Úrslitaskák? Alþjóðlegu meistararnir Björn Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson mætast í lokaumferðinni.

Það er engin lognmolla á Skákþingi Reykjavíkur og mikil átök framundan þegar ein umferð lifir af móti. Staðan er nú þannig fyrir lokaumferðina að fjórir keppendur eru efstir og jafnir með 6,5 vinning úr þeim átta umferðum sem er lokið en þeir eru stórmeistarinn Stefán Kristjánsson (2471), alþjóðlegu meistararnir Björn Þorfinnsson (2418) og Jón Viktor Gunnarsson (2455), sem og Fide-meistarinn Dagur Ragnarsson (2219). Fide-meistarinn Guðmundur Gíslason (2307) kemur næstur með 6 vinninga en sex vaskir kappar fylgja í humátt með 5,5 vinning, þeirra á meðal alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2456) og hinn ungi Vignir Vatnar Stefánsson (2071).

gpj

Gauti Páll Jónsson er á góðu flugi og nálgast 2000 stigin óðfluga.

Áttunda og næstsíðasta umferð fór fram í gærkveld og er það til marks um hve jafnar viðureignirnar eru orðnar að jafntefli varð niðurstaðan á fjórum efstu borðunum, þ.e. á milli Stefáns og Björns, Guðmundar Gísla og Jóns Viktors, Björgvins Víglundssonar (2203) og Dags, sem og Vignis Vatnars og Einars Valdimarssonar (2015). Á næstu borðum sigruðu Örn Leó Jóhannsson (2157) og Guðmundur Kjartans þá Jóhann H. Ragnarsson (2008) og Þorvarð F. Ólafsson (2206).

Þó nokkuð var um jafntefli milli þeirra stigalægri og hinna stigahærri og til að mynda gerði Gauti Páll Jónsson (1921) jafntefli við gamla brýnið Jón Kristinsson (2240) sem varð Skákmeistari Reykjavíkur sex sinnum á árunum 1964-1973. Þá vekur athygli sigur hins unga Alexanders Olivers Mai (1480) á Tjörva Schiöth (1761) en fjölmargir af skákmönnum yngri kynslóðarinnar eru að taka inn góða stigahækkun á Skákþinginu.

IMG_7830

Alexander Oliver Mai er einn af fulltrúum yngri kynslóðarinnar sem eru í mikilli framför.

Baráttan um hin fjölmörgu stigaverðlaun er aukinheldur hörð og má nefna að í flokki U2000 eru Gauti Páll og Hörður Aron Hauksson (1908) efstir með 5 vinninga, í flokki U1800 berjast Aron Þór Mai (1714), Sigurjón Haraldsson (1791) og Óskar Haraldsson (1784) allir með 4,5 vinning og í flokki U1600 hafa Héðinn Briem (1546), Mykhaylo Kravchuk (1504) og Alexander Oliver allir 4 vinninga. Þá eru einnig veitt verðlaun í flokkum U1400, U1200 og flokki stigalausra.

Úrslit ráðast næstkomandi sunnudag þegar blásið verður til níundu og síðustu umferðar á slaginu 14:00. Þá mætast á efstu borðum Björn og Jón Viktor, Dagur og Guðmundur Gísla, Guðmundur Kjartans og Stefán, sem og Einar og Björgvin. Það er mikilvægt fyrir áhugasama að mæta í Faxafenið og berja stemninguna augum en ekki er loku fyrir það skotið að vöffluilmur muni leika um vit viðstaddra þar sem Birna reiðir fram hnossgæti af sinni alkunnu snilld.

Við minnum jafnframt á Hraðskákmót Reykjavíkur sem fer fram sunnudaginn 7. febrúar. Þar mun einnig fara fram verðlaunaafhending fyrir Skákþingið.