Hannes í 3.-8. sæti fyrir lokaumferðina, Þröstur vinnur á.



Stigahæsti skákmaður Taflfélags Reykjavíkur sem og landsins alls, Hannes Hlífar Stefánsson (2563), sigraði Frakkann, Igor-Alexandre Nataf (2533), í áttundu og næstsíðustu umferð Reykjavíkurmótsins en umferðinni var að ljúka.  Hannes er því kominn upp í 3.-8. sæti með 6 vinninga líkt og landi hans, Héðinn Steingrímsson (2547) sem einnig vann í dag, en þeir eru efstir íslensku þátttakendanna.

Þröstur Þórhallsson (2442) vann sína aðra skák í röð og er nú kominn í toppbaráttuna með 5,5 vinning en 6 skákmenn eru jafnir honum að vinningum.  Guðmundur Kjartansson (2365) sigraði einnig og hefur 4,5 vinning líkt og Stefán Kristjánsson (2472) sem líka vann í dag.  Kristján Örn Elíasson (1940) hefur risið upp á ný með sína aðra sigurskák í röð og hefur nú 4 vinninga og 34 skákstig í gróða.  Björn Jónsson (2012) náði loks að rétta sinn kút með sigri en þetta hefur ekki verið hans besta mót og má hugsanlega kenna um lítilli taflmennsku að undanförnu.

Frímann Benediktsson (1939), Víkingur Fjalar Eiríksson (1882), Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir (1775), Páll Andrason (1564) og Birkir Karl Sigurðsson (1355) töpuðu sínum skákum.

 

Fyrir lokaumferðina sem fram fer á morgun eru úkraínski stórmeistarinn, Yuriy Kryvoruchko (2604), og rúmenski stórmeistarinn, Mihail Marin (2556), efstir og jafnir með 6,5 vinning.  Sex skákmenn koma þar á eftir með 6 vinninga, þ.á.m. Hannes, eins og fyrr segir.

 

Níunda og síðasta umferð fer fram á morgun og hefst kl. 13 en teflt er í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu mótsins og heimasíðu Skáksambands Íslands.