Gauti Páll sigraði á spennandi ÞriðjudagsmótiÞeir Gauti Páll Jónsson og Arnljótur Sigurðsson efndu til tveggja manna spretthlaups um efsta sætið á þriðjudagsmóti TR. Þeir voru tveir efstir og jafnir fyrir lokaumferð og tefldu spennandi úrslitaskák. Upp kom staða með drottningum og mislitum biskupum. Í þannig stöðum ræður kóngsstaðan yfirleitt úrslitum og vindar gnauðuðu heldur meira í kringum kóng Arnljóts og svo fór að Gauti sigldi sigri nokkuð örugglega í höfn og vann þannig mótið með fullu húsi. Stigahástökkvarar kvöldsins urðu hins vegar Helgi Hauksson og Elvar Mar Sigurðsson sem deildu 3. og 4. sætinu. Að sjálfsögðu er gætt vel að sóttvörnum á Þriðjudagsmótum og taflmennirnir (en þó ekki skákmennirnir) sprittaðir rækilega á milli umferða. Um sprittun á skákmönnum sjá hins vegar þátttakendur sjálfir.
Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.
Næsta þriðjudagsmót verður á morgun 15. september. Taflið hefst að venju 19:30 og tímamörk eru 15 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.