Gauti Páll og Kjartan Maack efstir á Þriðjudagsmóti



Mótsstjórinn Gauti Páll Jónsson, og fyrrum formaður TR Kjartan Maack, urðu efstir og jafnir á þriðjudagsmótinu þann 23. ágúst með 4.5 vinning af 5 eftir innbyrðis jafntefli í lokaumferðinni. Gauti Páll varð aðeins hærri á oddastigum þótt það munaði ekki miklu. Lokaskákin var spennandi og Gauti rétt slapp með fráskák í erfiðri vörn. 24 skákmenn mættu til leiks að þessu sinni og hlaut Mohammadhossein Ghasemi árangursverðlaunin, en hann er stigalaus og fékk 3.5 vinning, með árangur upp á 1611 stig. Halldór Kristjánsson og Sveinbjörn Jónsson fengu einnig 3.5 vinning og Brynjar Bjarkason fékk 4 vinninga.

Stöðu og öll úrlsit mótsins má nálgast á chess-results.

Nú er mikið mótahald framundan hjá TR, Árbæjarsafnsmótið verður sunnudaginn 28. ágúst, og þann 7. ágúst hefst Haustmót TR, eitt af flaggskipunum í íslensku mótahaldi.

Næsta Þriðjudagsmót hjá TR hefst stundvíslega þriðjudagskvöldið 30. ágúst klukkan 19:30.

Þriðjudagskvöldið 6. september verður síðan boðið upp á nýjung í mótahaldinu: Nokkrar efstu skákirnar verða tefldar á beinleiðis útsendingarborðum og mun Ingvar Þór Jóhannesson sjá um beinar lýsingar á meðan mótinu stendur. Stefnt er að því að mótin verði með þessum hætti einu sinni til tvisvar í mánuði.