Fjórða mótið í Bikarsyrpu T.R. hefst föstudaginn 1. maíbikarsyrpanbanner4_2

Bikarsyrpa Taflfélags Reykjavíkur er nýjung í mótahaldi á Íslandi. Syrpan samanstendur af nokkrum kappskákmótum og er ætluð börnum á grunnskólaaldri (fædd 1999 og síðar) sem ekki hafa náð 1600 skákstigum. Þar með gefst þeim tækifæri til að næla sér í alþjóðleg skákstig á skákmótum sem sérhönnuð eru fyrir þau.

kravch_aron

Fjórða mótið í syrpunni hefst föstudaginn 1. maí og stendur til sunnudagsins 3. maí. Tefldar eru 5 umferðir eftir svissnesku kerfi. Tímamörk eru 30 mínútur + 30 sekúndur á hvern leik og geta skákirnar því varað í allt að tvær klukkustundir. Þó svo við leggjum ætíð áherslu á að krakkarnir vandi sig og noti tímann vel, þá má gera ráð fyrir að margar skákir taki mun styttri tíma.

bikars14_2

Mótið er sérstaklega hugsað fyrir krakka sem hafa sótt skákæfingar Taflfélagsins (og/eða annarra taflfélaga) reglulega síðastliðinn vetur eða lengur. Það er gott að byrja sem fyrst að keppa á kappskákmótum, en hingað til hefur þeim krökkum sem vilja tefla á “alvöru mótum” mestmegnis staðið til boða að taka þátt í opnum mótum. Þar er styrkleikamunurinn oft mikill, mótin taka langan tíma, auk þess sem marga krakka óar við tilhugsuninni um að tefla við fullorðna á sínum fyrstu kappskákmótum. Bikarsyrpan er svarið við því.

bikars14_3

Einungis börn og unglingar á grunnskólaaldri sem ekki hafa náð 1600 alþjóðlegum skákstigum geta tekið þátt í mótum Bikarsyrpunnar. Þannig er styrkleikamunurinn minni en ella og krakkarnir njóta þess betur að tefla kappskákir. Tímamörkin eru líka styttri, og henta krökkunum betur en langar 90 mínútna skákir sem tíðkast á venjulegum kappskákmótum. Mótið uppfyllir öll skilyrði Alþjóða skáksambandsins FIDE og er reiknað til alþjóðlegra skákstiga sem gott er að byrja að safna snemma. Eins og á aðra viðburði félagsins þá er frítt í mótin fyrir krakka í Taflfélagi Reykjavíkur. Fyrir krakka í öðrum taflfélögum er þátttökugjaldið 1000 krónur fyrir hvert mót Bikarsyrpunnar.

Dagskrá:

  • 1. umferð 17.30 á föstudegi (1. maí)
  • 2. umferð 10.30 á laugardegi (2. maí)
  • 3. umferð 14.00 á laugardegi (2. maí)
  • 4. umferð 10.30 á sunnudegi (3. maí)
  • 5. umferð 14.00 á sunnudegi  (3. maí). (Lokaumferð + verðlaunaafhending).

Sigurvegari fyrsta móts Bikarsyrpunnar var TR-ingurinn Mykhaylo Kravchuk, TR-ingurinn Aron Þór Mai sigraði á öðru mótinu og á því þriðja sigraði Fjölnisdrengurinn Jóhann Arnar Finnsson.

Skráning fer fram hér.
Vinsamlegast skráið þátttakendur sem fyrst, það hjálpar við undirbúning mótsins!  Skráðir keppendur.

bikars14

Bikarsyrpan samanstendur af fjórum mótum í vetur. Bikarar og medalíur eru í verðlaun fyrir efstu sætin í hverju
 móti, en auk þess verða veitt sérstök verðlaun fyrir samanlagðan árangur á mótunum.

Hlökkum til að sjá ykkur!