Eiríkur sigraði á Þriðjudagsmóti



Rétt tæplega 20 skákmenn skeyttu ekkert um veðurblíðu (svona sæmilega miðað við veturinn) né Meistaradeild í fótbolta og settust að tafli í TR síðastliðinn þriðjudag. Að þessu sinni tók skákstjóri þátt eins og gjarnan er, þegar stendur á stöku, og vann allar skákirnar fimm. Svo bar við að upp kom sama vörnin í öllum umferðum hjá honum; Kóngsindversk vörn. Tvær með hvítu og þrjár með svörtu, takk fyrir. Í öðru sæti varð Kristófer Orri Guðmundsson með fjóra vinninga en jafn honum að vinningum en lægri á stigum varð síðan Magnús Sigurðsson. Magnús varð hins vegar efstur á frammistöðustigum (að frátöldum þeim sem vann en sami aðili fær auðvitað aldrei bæði verðlaunin).

Þeir Eiríkur og Magnús Sigurðsson uppskera því úttektarverðlaunin hjá Skákbúðinni að þessu sinni og er skákstjóri þegar búinn að taka út sín verðlaun í formi afar athyglisverðra bóka. Þó enga um Kóngsindverska vörn…

Öll úrslit og stöðu mótsins má annars nálgast hér á chess-results.

Næsta Þriðjudagsmót verður 26. apríl, klukkan 19:30 stundvíslega í félagsheimili TR, Faxafeni 12. Að venju fimm umferðir; 10 mín. á skák að viðbættum 5 sek. fyrir hvern leik.