Einar öruggur sigurvegari Skákmóts öðlingaodl___15 (2)

Skákmóti öðlinga lauk síðastliðið miðvikudagskvöld þegar sjöunda og lokaumferð mótsins fór fram.  Fyrir umferðina hafði Einar Valdimarsson vinningsforskot og dugði því jafnteflil gegn Haraldi Baldurssyni en Einar gerði sér lítið fyrir og kórónaði frammistöðu sína með sigri og hlaut því fullt hús vinninga, tveimur vinningum meira en næstu keppendur.  Viðlíka árangur í Öðlingamótinu hefur ekki sést hin síðari ár en þess má geta að Einar var sjötti í stigaröð keppenda.

odl___15 (5)

Jafnir í 2.-4. sæti með 5 vinninga voru Þorvarður Fannar Ólafsson, Ögmundur Kristinsson og Ólafur Gísli Jónsson.  Ögmundur vann Þorvarð í lokaumferðinni en Ólafur lagði Eirík K. Björnsson.  Það þarf vart að geta þess að Einar hækkar langmest allra á Elo-stigum eða um 69 stig sem skýtur honum yfir 2000-stigamúrinn.

odl___15 (3)

Ef litið er framhjá hinum miklu yfirburðum Einars einkenndist mótið af mikilli spennu og jafnri baráttu sem sést best á því að í næstu sætum komu hvorki fleiri né færri en átta keppendur sem allir hlutu 4 vinninga.

odl___15 (1)

Taflfélag Reykjavíkur óskar Einari til hamingju með frábæran árangur og þakkar keppendum fyrir þátttökuna.  Við minnum jafnframt á Hraðskákmót öðlinga sem fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst klukkan 19.30 í húsnæði félagsins að Faxafeni 12 en þá fer fram verðlaunaafhending fyrir Skákmót öðlinga.

odl___15 (4)