Brögðóttur Bragi leiðir Haustmótið eftir 5.umferðHTR_2015_R4-29Félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur hýsti mikla hugsuði í dag er 5.umferð Haustmóts TR var tefld. Skákmenn létu rigningarsuddann, sem lamdi rúðurnar, hvorki trufla reiknigáfu sína né innsæi. Var barist fram í rauðan dauðann á öllum borðum og margir fallegir leikir framleiddir.

Í A-flokki stýrði Einar Hjalti Jensson hvítu mönnunum til sigurs gegn hinum eitilharða Benedikt Jónassyni. Með meira rými á borðinu og biskupaparið þrengdi Einar Hjalti að svörtu stöðunni hægt og rólega þar til eitthvað varð undan að láta. Bragi Þorfinnsson beitti sinni alþekktu og lymskulegu kænsku er hann snéri á Örn Leó Jóhannsson í endatafli. Þar með heldur Bragi efsta sæti A-flokks með 4,5 vinning, en Einar Hjalti fylgir honum eins og skugginn með 4 vinninga. Þeir félagarnir mætast einmitt í 6.umferð, næstkomandi miðvikudagskvöld, og búast gárungarnir við kyngimögnuðum tilþrifum. Lenka Ptacnikova og Sævar Bjarnason áttust við í lengstu skák mótsins til þessa en hún taldi heila 112 leiki. Linntu þau ekki látum fyrr en þau höfðu leikið 50 leiki án þess að hreyfa peð eða drepa mann. Vakti Lenka máls á því og þar með var hin fræga 50 leikja regla virkjuð. Hætt er við því að innsláttarþræll Taflfélagsins muni dreyma eltingaleik riddara og biskups í nótt.

Í B-flokki hélt Agnar Tómas Möller uppteknum hætti og vann Siguringa Sigurjónsson. Agnar Tómas er því enn taplaus í mótinu og hefur 4 vinninga. Bárður Örn Birkisson sýndi fádæma seiglu er hann lagði Snorra Þór Sigurðsson í endatafli. Þeir kunna endatöflin sín strákarnir í Taflfélaginu, enda ræður þar ríkjum endataflsróbótinn Torfi Leósson. Vignir Vatnar Stefánsson lagði taflfélagsbróður sinn Björn Hólm Birkisson næsta örugglega að velli eftir að Birni Hólm varð fótaskortur snemma tafls. Ekkert varð af baráttunni um heilbrigðiskerfið því skák Ólafs Gísla Jónssonar og Guðlaugar Þorsteinsdóttur var frestað. Sú viðureign verður án efa þrungin spennu enda næsta víst að Ólafur Gísli ætlar sér að rétta sinn hlut í mótinu eftir þunga byrjun. Guðlaug er sem fyrr í efsta sæti B-flokks með fullt hús og virðist hún vera í feyknafínu formi nú um stundir. Lofar það góðu fyrir íslenska kvennalandsliðið sem í nóvember mætir rjóma evrópskrar kvennaskákar í Laugardalshöll.

Í C-flokki hélt Gauti Páll Jónsson uppteknum hætti er hann lagði Ingvar Egil Vignisson að velli með sannfærandi hætti. Gauti Páll leiðir flokkinn með fullu húsi og virðist formaður TRUXVI samtakanna staðráðinn í því að leita uppi hvert einasta skákstig sem hann glataði fyrr á árinu. Í 2.sæti er Veronika Steinunn Magnúsdóttir með 3,5 vinning eftir þægilegan sigur á ungstirninu Óskari Víkingi Davíðssyni. Þá gerði Róbert Luu vandað jafntefli gegn Heimi Páli Ragnarssyni, en á þeim munar heilum 222 skákstigum.

Í Opnum flokki var hart barist sem fyrr og unnu hinir stigalægri þá stigahærri á þremur efstu borðunum. Alexander Oliver Mai tefldi vel á 1.borði gegn hinum sterka Hjálmari Hrafni Sigurvaldasyni og komst í vænlegt endatafl. Pilturinn lét ekki tímahrak á sig fá og fann góða leiki sem tryggði honum sigur á Hjálmari Hrafni þrátt fyrir að á þeim muni 246 skákstigum. Alexander Oliver er í mikilli uppsveiflu um þessar mundir sem sýnir sig í því að hann leiðir nú opna flokkinn með 4,5 vinning og er með 104 skákstig í plús eftir aðeins 5 skákir. Á 2.borði vann Jón Þór Lemery skák sína gegn Halldóri Atla Kristjánssyni og situr Jón Þór í 2-3.sæti með 4 vinninga. Jafn honum að vinningum er Arnar Milutin Heiðarsson en hann lagði Jason Andra Gíslason að velli.

Staðan í Haustmótinu er aðgengileg hér.

6.umferð Haustmótsins fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og eru gestir sem fyrr velkomnir á meðan húsrúm leyfir.