Arnar Ingi Njarðarson með sannfærandi sigur á Þriðjudagsmóti



Arnar Ingi Njarðarson stóð uppi sem sigurvegari á Þriðjudagsmóti vikunnar, enda eini taplausi maðurinn á mótinu. Arnar tefldi hreina úrslitaskák við Helga Hauksson í síðustu umferð en þeir félagar höfðu báðir lagt að velli stigahæstu menn mótsins (Björgvin Scram og Aron Ellert) í umferðinni á undan . Eftir nokkrar sviptingar í úrslitaskákinni náði Arnar að nýta sér alvarlega veikleika hjá Helga á svörtu reitunum með sleggjuleiknum Rf5! og Helgi þurfti að gefa drottningu og hrók, hvorki meira né minna, til að forðast mát. Þeir Arnar og Helgi hafa verið iðnir við kolann á Þriðjudagsmótum og sýndu hér báðir að áhugi og ástundun skilar sér alltaf. Helgi var síðan í 2. sæti, efstur á stigum í fjögurra manna hópi með 3 vinninga. Í þeim hópi var líka Arnar Breki Grettisson sem varð efstur á frammistöðutigum (performance rating). Þeir nafnarnir Arnar Ingi og Arnar Breki fá inneign hjá Skákbúðinni í verðlaun.
Öll úrslit og stöðu mótsins má nálgast á chess-results.
Næsta Þriðjudagsmót verður 12. október næstkomandi, klukkan 19:30 að venju í félagsheimili TR, Faxafeni 12.