Arnar E. Gunnarsson kóngur kónganna! 

kongakeppnin-9

Arnar E. Gunnarsson sigraði örugglega í geysiöflugri keppni skemmtikvöldakónganna á lokaskemmtikvöldi Taflfélags Reykjavíkur síðastliðið föstudagskvöld. Arnar sem tók sæti Jóns Viktors Gunnarssonar sem sigrað hafði “Frikkann 2015” en gat ekki mætt, gerði sér lítið fyrir og sigraði níu fyrstu skákir sínar áður en Karlöndin (Stefán Kristjánsson) náði loks að stöðva hann í lokaumferðinni.

kongakeppnin-8

Tefld voru afbrigði og stöður úr keppnum vetrarins og var byrjað á að tefla tvær Fischer Random stöður. Þar sigraði Arnar Íslandmeistarann sjálfan Björn Ívar Karlsson örugglega 2-0. Einnig mættust þá Mórinn og Karlöndin, stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson og Stefán Kristjánsson og þar hafði Karlöndin 2-0 sigur.

kongakeppnin-10
Í annarri umferð voru stöður úr skákum Morozevich tefldar og enn á ný tefldi Arnar við ríkjandi meistara í greininni Hannes Hlífar og hafði aftur sigur 2-0.

kongakeppnin-15

Þegar fyrsta hlé var gert á taflmennskunni eftir fjórar skákir leiddu Arnar E og Stefán Kristjánsson með fullu húsi, en Stefán Bergsson fulltrúi sigurliðs Gagnfræðaskóla Akureyrar sem sigrað hafði “Gaggann 2015” og Mórinn sjálfur, Hannes Hlífar voru ekki komnir á blað.

kongakeppnin-20

Stefán Kristjánsson og Arnar héldu áfram fram eftir kvöldi að velta hinum ýmsu konungum af stalli sínum og mættust svo í lokaumferðinni þegar stöður úr skákum Friðriks Ólafssonar voru tefldar. Þar þurfti Karlöndin nauðsynlega á sigri að halda eftir 1-1 jafntefli við Björn Ívar í næstsíðustu umferð. Arnar gaf þó engin grið og lagði Stefán að velli í fyrri skákinni og tryggði þar með sigur á mótinu.

kongakeppnin-21

Karlöndin náði öðru sætinu með 8 vinninga af 10 sem einhverntímann hefði dugað til sigurs. Fischer Random sérfræðingurinn Björn Ívar náði svo þriðja sætinu með 5 ½ vinning. Aðrir hlutu færri vinninga, en enginn þó jafnfáa og Gagginn Stefán Bergsson sem var eggjaður skilmerkilega í öllum umferðum. Hugsanlega hefðu fleiri hlé á milli umferða hjálpað honum en þó erfitt að fullyrða nokkuð um það!

kongakeppnin-5kongakeppnin-6

Í áskorendaflokki þóttu sigurstranglegastir krónprins TR Kjartan Maack og nýsleginn sigurvegari B flokks Wow air
mótsins Sverrir Örn Björnsson. Skákgengismeðlimirnir Loftur Baldvinsson og Halldór Ingi Kárason brutu þó drauma þessara annars ágætu skákmanna og tóku tvö efstu sætin. Báðir hlutu 10 vinninga af 12 mögulegum en Loftur hlaut fyrsta sætið á stigum. Kjartan Maack varð að gera sér þriðja sætið að góðu með 8 vinninga.

kongakeppnin-3

Í byrjun móts fór fram verðlaunaafhending fyrir Wow air vormót Taflfélags Reykjavíkur. Þar sigraði stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánson nokkuð örugglega með 5 ½ vinning af 7 mögulegum. FM hnakkarnir röðuðu sér þar í sætin á eftir, Davíð Kjartansson og Sigurður Daði Sigfússon með 5 vinninga og Einar Hjalti Jensson með 4 ½ vinning.

kongakeppnin-2b

Í B flokki sigraði Sverrir Örn Björnsson nokkuð sannfærandi með 5 ½ vinning. Hinn ungi Vignir Vatnar Stefánsson átti mjög gott mót og endaði í öðru sæti með 5 vinninga og Halldór Pálsson tók bronsið með 4 ½ vinning.

Úrslit, Kóngakeppnin:

Place Name Score M-Buch. Buch. Progr.

 • 1 Arnar E Gunnarsson, 9 13.0 21.0 29.0
 • 2 Stefán Kristjánsson, 8 13.0 22.0 27.0
 • 3 Björn Ívar Karlsson, 5.5 15.5 24.5 13.5
 • 4 Hannes Hlífar Stefánsson, 5 16.0 25.0 10.0
 • 5 Guðni Stefán Pétursson, 2.5 18.5 27.5 10.5
 • 6 Stefán Bergsson, 0 18.5 30.0 0.0

Úrslit, Áskorendaflokkur:

Place Name Score M-Buch. Buch. Progr.

 • 1-2 Loftur Baldvinsson, 10 23.0 34.0 35.0
  Halldór Ingi Kárason, 10 22.5 33.5 34.0
 • 3 Kjartan Maack, 8 24.0 35.0 26.0
 • 4 Sverrir Örn Björnsson, 5.5 27.5 41.5 22.0
 • 5 Hjálmar Sigurvaldason, 5 24.0 35.0 16.5
 • 6 Héðinn Briem, 4.5 22.5 33.5 14.5
 • 7 Sigurður Freyr Jónatansson, 4 23.0 34.0 18.0
 • 8 Hörður Jónasson, 1 27.5 41.5 2.0

Taflfélag Reykjavíkur óskar Arnari til hamingju með titilinn Skemmtikvöldakóngur TR 2015, Lofti með sigurinn í áskorendaflokki og vill þakka öllum þeim fjölmörgu skákmönnum sem hafa tekið þátt á skemmtikvöldunum í vetur og gert þau jafn vel heppnuð og skemmtileg og raun ber vitni. Sérstakar þakkir fá svo vertarnir á Billiardbarnum sem stóðu sig frábærlega í allan vetur við að væta kverkar þyrstra skákmanna.