Unglingalið TR sigraði Kvennalandsliðið!16_lida_urslit-1

TRuxvi og Kvennalandsliðið. Spennan í hámarki!

Tvær viðureignir í Hraðskákkeppni taflfélaga fóru fram í skákhöll TR í gærkvöldi.

Í forkeppni um sæti í 16. liða úrslitum mættust Unglingalið Taflfélags Reykjavíkur (Truxvi) og Kvennalandsliðið. Fyrirfram var búist við jafnri keppni og sú varð líka raunin.

16_lida_urslit-4

TRuxvi – Gauti Páll, Aron, Hilmir, Vignir, Björn og Bárður. Róbert Luu fylgist spenntur með!

Sveit Truxvi leiddi Hilmir Freyr Heimisson sem nýverið gékk til liðs við TR úr Hugin, en með honum í sveit að þessu sinni tefldu þeir Vignir Vatnar Stefánsson, tvíburabræðurnir Björn og Bárður Birkissynir, Gauti Páll Jónsson, Aron Þór Mai og hinn kornungi Róbert Luu.

Allt kvennalandsliðið var mætt með stórmeistara kvenna Lenku Ptacnikovu í broddi fylkingar. Með henni tefldu þær Hallgerður Helga, Jóhanna Björg, Elsa María, Tinna Kristín, Veronika og Guðlaug Þorsteinsdóttir.

Unglingalið TR tók strax forystu með 4 ½ – 1 ½ sigri í fyrstu umferð. Liðin skiptust svo á að sigra í næstu umferðum og í hálfleik leiddi TRuxvi með 20 vinningum gegn 16 vinningum Kvennalandsliðsins. Enn dró sundur með liðunum í áttundu umferði sem Truxvi vann 4 ½ – 1 ½ en landsliðið svaraði strax fyrir sig í næstu umferð á eftir, 5 – 1. Munaði þá einungis þremur vinningum á sveitunum en í tíundu umferð má segja að Unglingaliðið hafi gert út um viðureignina með öruggum 4 ½ – 1 ½ sigri. Fyrir lokaumferðina munaði sex vinningum á sveitunum og þurfti Kvennalandsliðið því á kraftaverki að halda til að tryggja sér framlengingu. Ekkert slíkt gerðist og Truxvi sigldi í sextán liða úrslit með öruggum 4 ½ – 1 ½ sigri. Lokatölur urðu 40 ½ – 31 ½ .

16_lida_urslit-3

Björn og Bárður að tafli.

Bárður stóð sig best í unglingaliði TR með 10 vinninga úr 12 skákum. Hilmir hlaut 7 ½ vinning í 11 skákum og Björn 7 vinninga úr 12 skákum.

Lenka dró vagninn fyrir Kvennalandsliðið með 8 vinninga úr 11 skákum, Hallgerður krækti í 6 ½ vinning úr 12 skákum og Elsa 5 ½ vinning af 11 mögulegum.

Sannarlega glæsilegur sigur hinnar sterku unglingasveitar félagsins og verður gaman að fylgjast með sveitinn kljást við lið Hauka í 16 liða úrslitum. Meðlimir Kvennalandsliðsins geta huggað sig við að flestar geta þær keppt áfram með sínum félagsliðum í keppninni.

16_lida_urslit-2

UMSB – TR. Ójöfn viðureign en allir skemmtu sér konunglega.

Hin viðureign kvöldsins var ójöfn enda mikill styrkleikamunur á sveitum UMSB og TR. Ríkjandi meistarararnir úr TR unnu stórsigra í hverri umferð og unnu sannfærandi í lokin 65 ½ – 6 ½

Í sigursveit TR voru alþjóðlegu meistararnir Jón Viktor Gunnarsson, Arnar E. Gunnarsson, Bragi Þorfinnsson, alþjóða dómarinn Omar Salama, Daði Ómarsson, Björgvin Víglundsson og þeir Björn Jónsson og Kjartan Maack.

Jón Viktor, Arnar, Bragi, Omar, Daði og Björn voru allir með fullt hús vinninga.

Bestum árangri í liði UMSB náði Einar Valdimarsson en hann krækti í 2 ½ vinning í ellefu skákum.

TR vill koma á framfæri þökkum til UMSB og Kvennalandsliðsins fyrir drengilega og skemmtilega keppni!