Pistill frá Guðmundi Kjartanssyni



Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson hefur að undanförnu dvalið í Suður Ameríku þar sem hann hefur tekið þátt í mörgum skákmótum.  Hér á eftir fer Guðmundur yfir gang mála í skemmtilegum pistli:

Panama Open og McGregor

 

Svo ég fari hratt  yfir það sem er búið að vera að gerast hjá mér síðan ég fór út 30.apríl s.l. Fyrstu 5 mánuðina var ég í Ekvador og tók þátt í 4 mótum sem ég vann öll og hækkaði um talsvert af stigum. Ég var aldrei stigahæsti keppandinn og úrslitin réðust alltaf í síðustu umferð svo ég get verið sáttur með þann árangur.

 

Á þeim tíma tók ég líka þátt í einu móti í Kólumbíu, þar sem ég átti ekkert sérstakt mót en hækkaði um eitt stig. Svo í lok september fór ég í rútu með bróður mínum til Kólumbíu og þaðan til Venezuela þar sem ég tók loksins þátt í nokkuð sterku móti sem Beliavsky vann. Ég átti frekar slakt mót þó að ég var að tefla ágætlega og tapaði nokkrum stigum. Þaðan fór ég til Kólumbíu aftur, þar sem ég tók þátt í nokkuð sterku móti í Bogotá en bróðir minn fór aftur til Ekvador. Ég átti nokkuð gott mót, lenti í 1.-3. sæti (öðru sæti á stigum) og vann m.a. sigurvegara mótsins, 15 ára alþjóðlegan meistara sem var mjög nálægt sínum öðrum stórmeistara áfanga

 

Þaðan fór ég aftur til Venezuela í rútu, tók þátt í mjög sterku móti, 24 keppendur, meirihlutinn stórmeistarar,  meðal þátttakenda voru Bruzon og Iturrizaga. Ég lenti í sjöunda sæti sem ég get verið sáttur við, var reyndar mjög óheppinn í fyrstu umferð þar sem ég tapaði 30 sekúndum í tímahrakinu  útaf veseni með klukkuna, á mikilvægu augnabliki þegar andstæðingur minn GM Aramis Alvarez frá Kúbu var undir pressu. Ég er nokkuð viss um að úrslitin hefðu orðið önnur hefði þetta ekki gerst. En ég átti nokkur góð úrslit í þessu móti og endaði fyrir ofan Bruzon sem tapaði tveimur síðustu skákunum.

 

Ég tók þátt í einu móti til viðbótar í Venezuela, 7.umferða mót þar sem ég var þriðji stigahæsti keppandinn á eftir tveimur alþjóðlegum meisturum frá Kúbu. Ég tapaði gegn stigalægri andstæðingi í miðju móti sem tefldi reyndar ágætlega en svo gerði ég jafntefli gegn næst stigahæsta keppandanum sem slapp mjög vel og vann svo síðustu skákina gegn stigahæsta keppandanum og endaði því í 1.-3. Sæti. Eftir þetta fór ég til Kólumbíu og þaðan flaug ég til Panama til að taka þátt í Panama Open. Mótið byrjaði mjög illa en ég tapaði strax í annarri umferð fyrir skákmanni með tæp 1800 stig. Í umferðinni á eftir var hann reyndar líklega með unnið gegn Kúbverja með 2500+ en lék því niður að lokum.

 

Eftir þetta tap get ég svo sem verið sáttur við að koma út nánast á sléttu og ég tefldi allt í lagi á köflum, var m.a. með mjög vænlega stöðu gegn Mihail Marin, gæti verið að ég hafi verið með einhverja vinningssénsa en hann hékk á jafntefli. Spurði hann eftir skákina hvort ég hafi ekki misst af einhverju, hann þvertók fyrir það og sagði að þetta hefði verið jafnt allan tímann! Eftir mótið bauðst ég til að þjálfa félaga minn sem ég tapaði fyrir og í staðinn fékk ég gistingu fram að næsta móti. Svo ég var 9 daga áfram í Panama eftir mótið og fór þá til Kólumbíu aftur og tók þátt í McGregor sem er með stærri mótunum hérna í suður ameríku

 

Ég byrjaði nokkuð vel, vann tvo þokkalega andstæðinga og svo í þriðju umferð fékk ég að hefna mín gegn kúbverska stórmeistaranum sem ég tapaði fyrir í Venezuela. Í fjórðu umferð tefldi ég svo gegn stigahæsta keppanda mótsins, Bruzon. Ég tefldi allt í lagi framan af og var líklega kominn með mjög vænlega stöðu og hálftímaforskot á klukkunni en þá er ég of fljótur á mér og kærulaus og leik stöðunni niður og er allt í einu kominn með koltapað. Seinni hluti mótsins var því frekar slakur, neitaði þrátefli gegn 2250 manni og tapaði. Fékk svo þrjá og hálfan úr síðustu fjórum skákunum.

 

 

Annars er lífið bara ágætt hérna úti, reyndar orðinn soldið þreyttur á því að ferðast, mikið af löngum rútuferðum. Bý á hótelum á meðan á mótunum stendur en á milli móta hef ég yfirleitt verið heppinn með að fá gistingu hjá kunningjum og vinum eða nemendum mínum. Hvað mótin varðar þá finnst mér kostur að mótin taki stuttan tíma, yfirleitt 7-9 umferða mót á 3-4 dögum. Styrkleiki skákmanna hérna er ekki alltaf í samræmi við stigin, tefldi t.d. við tvo stigalausa skákmenn í síðasta móti sem voru með töluverðan styrkleika, einn líklega yfir 1800 og hinn yfir 2000 myndi ég giska.

 

Nú er ég kominn til Kosta Ríka þar sem ég tek þátt í enn öðru mótinu. Er þriðji stigahæsti keppandinn á eftir tveimur alþjóðlegum meisturum héðan. Kosta Ríka er reyndar fyrsta landið mitt her í Latínó Ameríku, en ég millilenti hérna áður en ég fór til Ekvador og sá þá töluvert af landinu áður en ég lenti. Virkilega flott land svo mig langaði alltaf til að koma hingað. Á flugvellinum í Bogotá áður en ég kom hingað til Kosta Ríka er mér svo sagt að ég þurfi vottorð fyrir því að ég sé búinn að láta bólusetja mig gegn gulunni amk. 10 dögum áður. Svo ég múta einhverri konu þarna á flugvellinum til að gefa mér vottorð og breyta dagsetningunni og allir hamingjusamir!

 

Það sem er svo framundan hjá mér, ég kem til Íslands á aðfangadagsmorgun og tek svo Hastings með Hjörvari um áramótin. Eftir það reyni ég líklega að taka þátt í Skákþingi Reykjavíkur og undirbúa mig fyrir Reykjavík Open. Adios!