Þungur róður Guðmundar á Íslandsmótinu



Taflfélag Reykjavíkur átti einn fulltrúa í landsliðsflokki Skákþings Reykjavíkur sem lauk síðastliðna helgi.  Alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2327) átti ekki gott mót að þessu sinni og hafnaði í níunda sæti með 2,5 vinning.  Hann tapaði gegn stórmeisturunum, Henrik Danielsen (2533) , Héðni Steingrímssyni (2554) og Þresti Þórhallssyni (2387), sem og Guðmundi Gíslasyni (2291) og Róberti Lagerman (2320).  Jafntefli gerði hann við alþjóðlegu meistarana, Stefán Kristjánsson (2483) og Braga Þorfinnsson (2417), sem og Ingvar Þór Jóhannesson (2338).  Guðmundur vann eina skák, gegn Jóni Árna Halldórssyni (2195).

Erfið byrjun þar sem hann mætti tveimur stigahæstu keppendunum í þrem fyrstu umferðunum hefur hugsanlega sett strik í reikninginn en Guðmundi hefur gengið nokkuð misjafnlega síðan hann náði sínum fyrsta stórmeistaraáfanga síðastliðið sumar.  Hann lækkar um 13 elo-stig eftir Íslandsmótið.

En á eftir lægð kemur hæð og það er stutt í að hann komi tvíefldur til baka.

Nokkuð öruggur sigurvegari var Héðinn og var sigur hans raunar aldrei í hættu.

  • Lokastaða
  • Samantekt Gunnars Björnssonar, forseta SÍ