Magnús Pálmi sigurvegari Vetrarmóts öðlingaÍ gærkvöldi fór fram sjöunda og síðasta umferðin í Vetrarmóti öðlinga. Spennan var mikil enda Magnús Pálmi Örnólfsson og Þorvarður Fannar Ólafsson efstir og jafnir fyrir umferðina með fimm vinninga, heilum vinning á undan næstu mönnum.

Magnús tefldi við Vignir Bjarnason meðan Þorvarður mætti Kristjáni Halldórssyni. Báðar skákirnar voru jafnar lengi framan af og spennan magnaðist þegar á leið. Lengstu skákirnar voru á þremur efstu borðunum en á því þriðja vann að lokum Sverrir Örn Björnsson skák sína við John Ontiveros og tryggði sér þar með þriðja sætið á mótinu.

Magnús vann svo sína skák gegn Vigni eftir að hafa unnið riddara á skemmtilegan hátt. Allra augu beindust þá að skák Þorvarðar og Kristjáns en þar stóð Þorvarður betur en var orðinn tæpur á tíma. Hann var þó öryggið uppmálað í snúnu endatafli og sótti vinning þrátt fyrir öfluga og hetjulega vörn Kristjáns.

Magnús Pálmi og Þorvarður Fannar komu því jafnir í mark með sex vinning og þurfti því að grípa til stigaútreiknings til að knýja fram úrslit. Þar hafði Magnús betur en jafnara gat það vart orðið. Hann er því Vetrarmeistari öðlinga 2014 og er vel kominn að þeim sigri. Þetta er annar sigur hans á kappskákmóti í skákhöllinni á árinu, en Magnús sigraði örugglega áskorendaflokk Wow air mótins í vor.

Þorvarður sem sjaldan lætur sig vanta á mót félagsins varð að þessu sinni að gera sér annað sætið að góðu.

Guðmundur Aronsson varð nokkuð óvænt í fjórða sæti, jafn Sverri að vinningum. Hann tefldi skák sína við Magnús Magnússon í lokaumferðinni listavel og vann örugglega.

Fimmti varð skákkennarinn góðkunni Siguringi Sigurjónsson með fjóra og hálfan vinning en hann vann Sigurjón Haraldsson í lokaumferðinni. Þéttur hópar öðlinga kom þar á eftir með fjóra vinninga, þar á meðal Magnús Magnússon sem leiddi mótið í byrjun og Ólafur Gísli Jónsson sem tefldi stórglæsilega fórnarskák í gærkvöldi gegn gegn Grím Grímsyni sem varð að játa sig sigraðann í innan við 20 leikjum. Einkar vel að verki staðið hjá Ólafi Gísla.

Verðlaunaafhending fór fram í mótslok.

www.chess-results.com/tnr150003.aspx

Mótið tókst í alla staði vel og vill Taflfélag Reykjavíkur þakka öllum þeim sem tóku þátt.